Sendir heimsbyggðinni rauða viðvörun

António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP

„Ég sendi ekki ákall, heldur viðvörun, rauða viðvörun til heimsbyggðarinnar.“ Þetta er meðal þess sem kom fram í áramótaávarpi António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Hann segir að meðal helstu ógna sem íbúar heimsins búi við er sívaxandi misskipting lífsgæða, loftslagsbreytingar, vaxandi þjóðernishyggja og kjarnorkuvopn. Guterres er samt vongóður um að lausn finnist á helstu vandamálunum, fyrr eða síðar, ef þjóðir heims sýni samhug í verki.

Guterres tók við embætti framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í ársbyrjun 2017. Eitt af hans fyrstu verkum var að hvetja þjóðir heims til að leggjast á eitt svo árið 2017 yrði ár friðar. „Því miður gerðist hið gagnstæða," sagði Guterres í ávarpi sínu.

Kjarnorkuvopn voru þungamiðjan í ávarpi Guterres sem sagði að kjarnorkuvopn hefðu ekki valdið heimsbyggðinni jafnmiklum áhyggjum síðan á hápunkti kalda stríðsins. Þá sagði hann loftslagsbreytingar vera meiri og hraðari en mannkynið ráði við.

Guterres endaði ávarp sitt á því að hvetja til samstöðu meðal þjóða heimsins. „Samstaða er lykillinn og framtíð okkar veltur á henni.“

Hér má sjá og heyra ávarps Guterres í heild sinni:

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert