Greindu ekki frá salmónellu í þurrmjólk

Framleiðsla í verksmiðjunni, sem staðsett er í Craon í Frakklandi, ...
Framleiðsla í verksmiðjunni, sem staðsett er í Craon í Frakklandi, var stöðvuð í byrjun desember. AFP

Franska matvælaeftirlitinu yfirsást salmónellumengun í verksmiðju á vegum mjólkurvörurisans Lactalis, sem framleiðir meðal annars þurrmjólkurduft fyrir ungabörn, við skoðun sem fór fram í september síðastliðnum. Þá höfðu starfsmenn fyrirtækisins þegar greint mengunina við sýnatöku, en gerðu yfirvöldum ekki viðvart. Þá voru engar ráðstafanir gerðar til að innkalla vörur sem hugsanlega höfðu mengast við framleiðsluna. AFP-fréttastofan greinir frá.

Við hefðbundna skoðun matvælaeftirlitsins í september voru engar athugasemdir gerðar við framleiðslu í verksmiðjunni í Craon í norðvesturhluta Frakklands og grænt ljós gefið á áframhaldandi starfsemi. Í ágúst og nóvember greindu starfsmenn Lactalis þó salmónellumengun í sýnum sem þeir tóku.

Það var ekki fyrr en í byrjun desember eftir að um þrjátíu ungbörn höfðu veikst af salmónellusýkingu í kjölfar þess að hafa fengið Lactalis þurrmjólk, að franska heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu þar sem varað var við neyslu mjólkurduftsins. Farið var í eftirlitsferð í verksmiðjuna þar sem upptök salmónellusmitsins voru rakin til framleiðslustöðvar þar sem mjólk var umbreytt í ungbarnaformúlu.

Í kjölfarið innkallaði Lactalis alla þurrmjólk undir heitinu Picot og Milumel, sem seld hafði verið til Kína, Pakistan, Banglades, Bretlands og Súdan, frá 15. febrúar á síðasta ári. Framleiðsla í verksmiðjunni var einnig stöðvuð.

Fyrirtækið sætir nú rannsókn vegna málsins og gæti átt yfir höfði sér ákæru fyrir að valda tjóni af gáleysi og að setja líf annarra í hættu.

Einkenni salmónellu lýsa sér með svæsnum niðurgangi, magakrömpum og uppköstum. Sýkingin er sérlega hættuleg ungum börnum og eldra fólki vegna hættu á ofþornun.

mbl.is