Mál gegn Weinstein og Toback til saksóknara

Harvey Weinstein og James Toback.
Harvey Weinstein og James Toback. AFP

Saksóknaraembætti Los Angeles er nú með til skoðunar að ákæra kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein fyrir kynferðisbrot. Lögreglan í Los Angeles hefur sent tvö mál gegn Weinstein til saksóknara og ef hann verður ákærður þá eru það fyrstu ákærurnar á hendur honum. Tugir kvenna hefur stigið fram og sakað Weinstein um kynferðislega áreitni og ofbeldi.

Samkvæmt frétt Guardian greindi saksóknaraembættið frá þessu í gærkvöldi en ekki er tilgreint hvað kom fram í rannsókninni.

Talsmaður saksóknaraembættisins, Greg Risling, segir að málin séu bæði í skoðun hjá embættinu og þau snerti bæði Weinstein. Risling segir að lögreglan hafi einnig afhent saksóknara fimm mál gegn kvikmyndagerðarmanninum James Toback. Hann hefur verið opinberlega sakaður um áreitni af hálfu leikara, svo sem Selma Blair og Julianne Moore.

Toback, sem er 73 ára, hefur ekki rætt við fjölmiðla en hefur áður neitað ásökunum á hendur honum sem birtar voru í Rolling Stone tímaritinu og Los Angeles Times. LAT greindi frá því að yfir 200 konur hafi sakað Toback um áreitni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert