Milljónir tölva mögulega í hættu

AFP

Hundruð milljóna tölva, sem innihalda tölvukubba frá bandaríska hátæknifyrritækinu Intel, kunna að eiga á hættu að verða tölvuglæpamönnum að bráð vegna galla í þeim sem ekki var þekktur árum saman samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph

Hugbúnaðarfyrirtæki eins og Microsoft og Amazon vinna að því að smíða hugbúnað sem getur lagað gallann en varað hefur verið við því að slík lagfæring gæti hægt á starfsemi tölva um 5-30%. Sjálft getur Intel ekki lagað tölvukubba sem þegar eru í notkun.

Haft er eftir sérfræðingum að málið sé alvarlegt enda getur gallinn opnað tölvuglæpamönnum dyr inn í tölvur án þess að þess verði vart. Gallinn veitir aðgang að þeim hluta tölvunnar sem geymir upplýsingar um allar aðgerðir sem gerðar eru.

Þannig geti utanaðkomandi einstaklingur mögulega komist fram hjá vírusvörnum og eldveggjum án þess að eigandi tölvunnar taki eftir því. Mögulega geti hann enn fremur komið fyrir forritum sem geti stolið lykilorðum og viðkvæmum skrám.

Tölvukubba frá Intel er gríðarlega víða að finna. Þannig eru þeir í nær öllum einkatölvum sem og tölvum til að mynda fjármálafyrirtækja. Eins í lestum og sjálfkeyrandi bílum. Hugsanlegt er að fjöldi tölva hafi verið fórnarlömb innbrota um árabil.

Vitað hefur verið um gallann í tölvukubbunum um nokkurn tíma en ekki hefur verið greint frá því opinberlega í hverju hann felist nákvæmlega á meðan unnið er að því að klára hugbúnaðinn sem ætlað er að koma í veg fyrir að gallinn sé nýttur.

Samkvæmt fréttinni er búist við að umræddur hugbúnaður verði tilbúinn í næstu viku. Ekki er vitað um tilfelli þar sem gallinn hafi verið nýttur en sérfræðingar telja ekki ósennilegt að það hafi gerst í ljósi þess að hann hafi verið til staða svona lengi.

Intel hefur enn ekki tjáð sig opinberlega um málið.

mbl.is