Dæmdur til að borga fyrir eigið uppeldi

Frá borginni Taichung í Taívan.
Frá borginni Taichung í Taívan. Ljósmynd/Wikipedia.org

Hæstiréttur Taívans hefur fyrirskipað rúmlega fertugum tannlækni að endurgreiða móður sinni sem nemur rúmum 78 milljónum króna vegna kostnaðar hennar af því að ala hann upp og mennta hann samkvæmt frétt breska dagblaðsins Guardian.

Fram kemur í fréttinni að dómstóllinn hefði komist að þeirri niðurstöðu að manninum, sem aðeins hefur verið nafngreindur í fjölmiðlum með fjölskyldunafninu Chu, bæri að standa við skriflegan samning sem hann gerði við móður sína fyrir 20 árum.

Þar hét maðurinn því að endurgreiða móður sinni umræddan kostnað. Móðir mannsins skildi við eiginmann sinn árið 1990 og ól tvo syni sína upp á eigin spýtur eftir það. Samninginn gerði hún vegna áhyggja af því að enginn myndu sjá um hana í ellinn.

Samningurinn, sem gerður var eftir að synirnir urðu tvítugir, kveður á um að þeir skyldu greiða móður sinni 60% af tekjum sínum eftir skatta. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að samningurinn væri gildur þar sem þeir voru báðir fullorðnir við undirritun.

Ennfremur er það niðurstaða dómstólsins að þar sem Chu starfar sem tannlæknir hafi hann efni á því að standa við samninginn. Móðirin sakaði syni sína um að hunsa sig eftir að þeir hófu sambönd við konur sínar sem hafi sýnt henni fjandsamlega framkomu.

Móðirin höfðaði dómsmálið fyrir átta árum eftir að synirnir neituðu að standa við samninginn. Eldri sonurinn samdi að lokum við móður sína um greiðslu sem nemur tæplega 18 milljóna króna. Chu taldi óeðlilegt að meta uppeldi barna sinna til fjár.

Lægri dómstig dæmdu Chu í hag en móðir hans áfrýjaði alla leið upp í Hæstarétt sem dæmdi að lokum henni í hag. Mikil umræða hefur verið um stöðu eldri borgara í Taívan og verið kallað eftir því að fangelsisdómum fyrir að sinna ekki öldruðum foreldrum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert