Trump hótar að stöðva aðstoð

AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hótar því að stöðva neyðaraðstoð til Palestínumanna en hún nemur ríflega 300 milljónum Bandaríkjadala á ári. Hann viðurkennir að friðarferlið í Miðausturlöndum sé í uppnámi. Palestínumenn neita að láta múta sér.

„Við greiðum Palestínumönnum hundruð milljóna Bandaríkjadala á ári og fáum ekkert í þakklætisskyni eða virðingu,“ skrifar Trump á Twitter. „Hvers vegna ættum við að greiða þeim þessar háu fjárhæðir þegar Palestínumenn vilja ekki lengur taka þátt í friðarviðræðum?“ bætir Trump við.


Ekki er vitað hvort Trump sé að hóta því að hætta öllum greiðslum til Palestínumanna en árið 2016 námu þær 319 milljónum Bandaríkjadala. 

„Við látum ekki múta okkur,“ segir Hanan Ashrawi, sem er háttsettur embættismaður í Palestínu í yfirlýsingu sem stjórnvöld sendu frá sér í kjölfar tísts Trumps.

„Trump forseti hefur unnið spellvirki á friðarumleitunum okkar, frelsi og réttlæti. Núna vogar hann sér að saka Palestínumenn um afleiðingar af eigin óábyrgu athöfnum.“

Bandaríkin hafa í mörg ár veitt yfirvöldum í Palestínu fjárhagsstuðning og stuðning við öryggismál auk þess að taka þátt í aðgerðum Sameinuðu þjóðanna á Gaza og Vesturbakkanum.

Frá Gazaborg.
Frá Gazaborg. AFP

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti fyrir jól ályktun þar sem viðurkenningu Bandaríkjanna á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels er hafnað og landið er hvatt til að draga hana til baka. Ályktunin var samþykkt með 128 atkvæðum gegn níu eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði hótað að stöðva fjárstuðning landsins við ríki sem greiddu atkvæði með ályktuninni.

Efnt var til atkvæðagreiðslunnar á allsherjarþinginu eftir að Bandaríkin beittu neitunarvaldi sínu gegn sams konar ályktunartillögu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á mánudaginn var. Öll hin ríkin fjórtán í öryggisráðinu samþykktu tillöguna, þeirra á meðal Bretland, Frakkland, Ítalía og Japan, sem eru á meðal helstu samstarfslanda Bandaríkjanna. Atkvæðagreiðslan endurspeglaði vaxandi einangrun Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi eftir að Trump tók við forsetaembættinu fyrir tæpu ári, að því er segir í grein Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu 22. desember.

Trump tilkynnti 6. desember að hann hefði ákveðið að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og vék þar með frá stefnu sem bandarísk stjórnvöld hafa fylgt síðustu áratugi í deilu Ísraela og Palestínumanna um framtíðarstöðu borgarinnar. Hún hefur verið eitt af erfiðustu deilumálum Ísraela og araba og torveldað mjög friðarsamninga, meðal annars vegna landtöku gyðinga á svæðum Palestínumanna. Sameinuðu þjóðirnar telja landtökuna og innlimun austurhluta Jerúsalem í Ísrael vera brot á þjóðarétti.

Fyrir atkvæðagreiðsluna 21. desember varaði Trump aðildarríki Sameinuðu þjóðanna við því að hann myndi fylgjast með því hvaða lönd greiddu atkvæði með ályktunartillögunni og hótaði að refsa þeim með því að stöðva fjárstuðning Bandaríkjanna við þau. „Þau taka hundruð milljóna dollara og jafnvel milljarða dollara og greiða svo atkvæði á móti okkur,“ sagði forsetinn. „Gott og vel, við fylgjumst með þessum atkvæðum. Leyfum þeim að greiða atkvæði á móti okkur. Við spörum þá heilmikið. Okkur er sama.“

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna, sendi sendiherrum annarra ríkja hjá Sameinuðu þjóðunum tölvupóst þar sem hún varaði þá við því að forsetinn myndi fylgjast grannt með atkvæðagreiðslunni og hefði beðið um upplýsingar um hvaða ríki greiddu atkvæði með ályktuninni.

Megnið af fjárstuðningi Bandaríkjanna við önnur lönd tengist hernaðaraðstoð og ólíklegt er talið að sá stuðningur verði stöðvaður til frambúðar vegna þess að hann er talinn mikilvægur fyrir öryggishagsmuni Bandaríkjanna. Ísrael, Afganistan og Írak hafa fengið mest af því fé sem tengist hernaðaraðstoð Bandaríkjanna. Þar á eftir kemur Egyptaland, sem er á meðal þeirra landa sem hafa gagnrýnt ákvörðun Trumps.

Fjárstuðningur Bandaríkjanna hefur numið um 20-25% af herútgjöldum Egypta síðustu ár en hann hefur nú þegar verið stöðvaður vegna ásakana um mannréttindabrot. Talið er að Bandaríkjastjórn hafi ætlað að hefja stuðninginn aftur á næsta ári en Donald Trump gæti frestað því vegna deilunnar um Jerúsalem. Talið er þó ólíklegt að Bandaríkjastjórn stöðvi fjárstuðninginn til langs tíma vegna þess að Egyptaland er enn álitið mikilvægt fyrir öryggishagsmuni Bandaríkjanna.

Trump hefur lengi haft efasemdir um þróunaraðstoð Bandaríkjanna við önnur lönd og telur að hún hafi verið misnotuð. Mörg þessara landa eru í Afríku, þeirra á meðal Eþíópía, Suður-Súdan, Kenía, Nígería og Austur-Kongó. Flest þeirra fá einnig aðstoð frá öðrum ríkjum, þannig að þau eru ekki eins háð Bandaríkjunum og löndin sem fá hernaðarlegu stuðninginn.

Stöðvi Trump fjárhagsaðstoðina við Afríkulöndin gæti það orðið til þess að Kínverjar ykju stuðning sinn við þau með það fyrir augum að auka enn áhrif sín í álfunni. Kínverjar hafa sóst eftir auknum viðskiptatengslum í Afríku á síðustu árum. Þeir hafa dælt fé í verkefni víðs vegar um álfuna og fengið að launum velvild, viðskipti og aðgang að náttúruauðlindum. Stefna Trumps gæti þannig orðið Kínverjum til framdráttar.

mbl.is