Drápu konur og börn

Að minnsta kosti 23 almennir borgarar létust í loftárásum Rússa og stjórnarhersins á Austur-Ghouta, skammt frá Damaskus í gær. Flestir þeirra létust í árásum Rússa eru konur og börn. Lesendur eru varaðir við myndum sem fylgja fréttinni. Austur-Ghouta er eitt helsta vígi stjórnarandstæðinga í Sýrlandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Syrian Observatory for Human Rights létust 18 í loftárásum Rússa á bæinn Misraba en aðrir létust í árásum stjórnarhersins á almenna borgara. 

Af þeim sem létust í Misraba eru þrjú börn og 11 konur. Fórnarlömb árásanna voru flutt á sjúkrahús í Douma og að sögn fréttamanns AFP sem var á staðnum voru flestir þeirra sem særðust í árásunum börn og konur.

Meðal annars reyndu læknar að endurlífga nýfætt barn sem var bjargað undan húsarústum án árangurs. Lítil stúlka sem fréttamaðurinn sá varð fyrir alvarlegum áverkum í andliti sem hún mun væntanlega aldrei jafna sig á. Læknar segja að meðal særðra séu tvær ungar konur um tvítugt. Önnur þeirra missti bæði augun og hin annað augað.

Yfir 340 þúsund almennir borgarar hafa látist í stríðinu í Sýrlandi sem hófst fyrir tæpum sjö árum. Yfir fimm milljónir Sýrlendinga hafa þurft að flýja heimili sín og eru annað hvort á vergangi í eigin landi eða á flótta. Allt hófst þetta með mótmælum gegn stjórnvöldum í landinu.

Austur-Ghouta er lítið innskotsvæði austan við höfuðborgina Damaskus og er héraðið að mestu undir stjórn Jaish al-Islam samtakanna. Rússar hófu að gera loftárásir í Sýrlandi árið 2015 en þeir eru helstu bandamenn forseta Sýrlands, Bashar al-Assad. Rússnesk stjórnvöld halda því fram að þeirra framlag felist í árásum á vígasamtök eins og Ríki íslams og neita því alltaf að árásirnar beinist að almennum borgurum í þessu stríðshrjáða landi.

Skiptir þar engu þrátt fyrir upplýsingar víða að um tegundir flugvéla sem varpa sprengjum á þorp og bæi og þau vopn sem beitt er. Á þriðjudag voru að minnsta kosti sjö almennir borgarar, þar af fimm börn, drepin í loftárásum í Idlib-héraði sem stjórnarherinn reynir ákaft að ná á sitt vald að nýju. Talið er að nánast stöðugar árásir hersins á Idlib hafi hrakið um 60 þúsund manns á flótta á síðustu tveimur mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert