Enginn svaraði eftir 2 ára samskiptaleysi

Horft yfir til Norður-Kóreu yfir ána Imjin frá borginni Paju.
Horft yfir til Norður-Kóreu yfir ána Imjin frá borginni Paju. AFP

Fyrstu samskipti nágrannalandanna, Norður- og Suður-Kóreu, eftir tæplega tveggja ára þögn byrjuðu ekki vel síðastliðinn miðvikudag. Opinberir starfsmenn í Suður-Kóreu hringdu í kollega sína í norðri en enginn svaraði símanum. Ástæðan er sú að þeir gleymdu að huga að tímamismuninum. The Guardian greinir frá.   

Opinberir starfsmenn hringdu frá borginni Panmunjom sem er við landamæri landanna um klukkan 9 um morguninn en svo árla morguns var enginn mættur til vinnu fyrir norðan. Árið 2015 var klukkunni seinkað um 30 mínútur í Norður-Kóreu.  

Þegar klukkan var orðin 9:30 í Norður-Kóreu var hringt til baka. Í því símtali spurði Suður-Kóreubúi hvort það væri eitthvað að frétta var svarið neikvætt á hinni línunni en bætt var við skömmu síðar: „Ef við höfum frá einhverju að segja munum við láta ykkur vita.“ 

Leiðtogar landanna tveggja hafa ekki hist síðan í desember 2015. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert