„Bók full af lygum“

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, fer ófögrum orðum um bókina Fire and Fury: Inside the Trump White House og segir bókina fulla af lygum. Bókin kom út í dag en útgáfunni var flýtt. Lögfræðingar Trumps ætluðu að reyna að koma í veg fyrir útgáfuna en mistókst. 

Höfundur bókarinnar er Michael Wolff, 64 ára fyrrverandi blaðamaður New York Magazine og Vanity Fair. Hún byggist á rúmlega 200 viðtölum, m.a. við Steve Bannon, fyrrverandi aðalstjórnmálaráðgjafa forsetans.

Lögmaður Trumps sendi Wolff og útgáfufyrirtækinu Henry Holt & Co bréf þar sem hann krafðist þess að hætt yrði við útgáfu bókarinnar þar sem hún væri „ærumeiðandi“. Í henni væru „fjölmargar rangar og/eða tilhæfulausar staðhæfingar“ um Trump og fjölskyldu hans.

Trump lýsti skoðunum sínum á bókinni á Twitter líkt og venjulega. Hann segir þar að hann hafi aldrei veitt Wolff aðgang að Hvíta húsinu og í rauninni synjað honum margoft.

„Ég talaði aldrei við hann fyrir bókina. Full af lygum, rangfærslum og heimildum sem ekki eru til,“ skrifar Trump á Twitter. 

Trump leggur til að fólk skoði bakgrunn og fylgist með hvernig fari fyrir honum og „Sóða Steve ( Sloppy Steve!)“

Þar á hann væntanlega við fyrrverandi aðalstjórnmálaráðgjafa forsetans, Steve Bannon eða Steve Rubin, útgefanda bókar Wolffs. 

Í bókinni, sem lýsir Trump sem vanstilltum á geði,  er haft eftir Bannon að hann telji að elsti sonur Trumps hafi gerst sekur um landráð með því að fallast á að eiga fund með lögfræðingi sem tengist stjórnvöldum í Rússlandi. Forsetinn varð ævareiður út í Bannon eftir að þetta spurðist út, sagði hann hafa misst vitið, og lýsti honum sem áhrifalausum oflátungi.

Bannon bætir um betur þegar hann lýstir Invanka Trump, dóttur forsetans, sem Bannon segir með álíka vitsmuni og múrstein. 

En í bókinni er það Trump sjálfur sem er helst í sviðsljósinu og fara margir af helstu aðstoðarmönnum hans ófögrum orðum um forsetann. Í bókinni er haft eftir Steve Mnuchin og Reince Priebus að forsetinn sé fáviti. Í augum Gary Cohn er Trump jafn heimskur og skítur og svona mætti lengi telja.

Blaðafulltrúi Hvíta hússins, Sarah Sanders, segir bókina hugarburð og að ólíklegt sé að Bandaríkjamenn leggi trúnað á ruslið sem þar er að finna. Sanders segir að vinnuveitandi Bannons, Breitbart News, eigi að íhuga alvarlega að reka hann úr starfi.

Í grein Boga Þórs Arasonar um bókina í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Breibart fréttavefurinn sé einn mest lesni fréttavefur hægrimanna í Bandaríkjunum og hefur verið gagnrýndur fyrir kynþáttafordóma og hatur á útlendingum, konum, hommum og lesbíum. Vefurinn er talin málpípa hvítra þjóðernissinna sem hafna „pólitískum rétttrúnaði“ ráðandi afla í stjórnmálunum, m.a. í Repúblikanaflokknum. Fréttavefurinn hefur oft veist harkalega að forystumönnum flokksins.

Bannon lét af störfum fyrir breitbart.com í ágúst 2016 þegar hann varð kosningastjóri Trumps. Hann var síðan skipaður aðalstjórnmálaráðgjafi forsetans eftir sigur Trumps í kosningunum í nóvember það ár. Bannon er talinn hafa haft mikil áhrif á stefnu Trumps, einkum í málum sem varða utanríkisviðskipti og innflytjendur. Ráðgjafinn lét síðan af embætti í ágúst síðastliðnum eftir harðvítugar erjur í Hvíta húsinu. Áður en Anthony Scaramucci lét af störfum sem fjölmiðlafulltrúi Trumps í júlí veittist hann harkalega að Bannon, lýsti honum sem sjálfkynhneigðum eiginhagsmunasegg og notaði svo gróf orð að margir fjölmiðlar vildu ekki hafa þau eftir.

Bannon hóf þá aftur störf sem yfirmaður breitbart.com og hefur notað vefinn til að reyna að styrkja stöðu þjóðernissinnaðra hægrimanna í Repúblikanaflokknum fyrir þingkosningarnar í nóvember, á miðju kjörtímabili forsetans. 

Trump sagði í yfirlýsingu í gær að Bannon hefði ekki aðeins „misst vinnuna heldur einnig vitið“ þegar honum hefði verið vikið frá störfum í Hvíta húsinu. Hann sagði að þáttur Bannons í kosningasigrinum í nóvember hefði verið mjög lítill og áhrif hans í Hvíta húsinu hefðu aldrei verið eins mikil og hann lét í veðri vaka. „Steve þykist eiga í stríði við fjölmiðlana, sem hann kallar stjórnarandstöðuflokkinn, samt eyddi hann tímanum í Hvíta húsinu í að leka fölskum upplýsingum í fjölmiðlana til að láta sig sjálfan líta út fyrir vera miklu mikilvægari en hann var.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert