-67°C með vindkælingu

Nístingskuldi er víða á austurströnd Bandaríkjanna og í Kanada og búist er við því að hvert kuldametið á fætur öðru muni falla. Kuldakast þetta kemur í kjölfar hríðarbyls sem fór frá suðri til norðurs síðustu daga. Honum fylgdu flóð ísvatns og mikil snjókoma víða.

Frostið hefur farið niður í -29 stig og að viðbættri vindkælingu var það allt niður í -67 gráður í nótt á fjöllum í New Hampshire.

Þúsundir íbúa í Nova Scotia í Kanada eru án rafmagns en veðurofsinn sló því út. Þúsundir snjómoksturstækja eru á fleygiferð götur og vegi allrar austurstrandar Bandaríkjanna.

Veðurstofan hafði varað við kuldakastinu sem skýrist af því að jökulkalt heimskautaloft hefur færst yfir meginland Norður-Ameríku.

Niagara-fossarnir í tilkomumiklum klakaböndum.
Niagara-fossarnir í tilkomumiklum klakaböndum. AFP

Mikið snjóaði í Boston og þar í grennd í vikunni og hafa íbúarnir í dag hafist handa við að moka snjó úr innkeyrslum og frá bílum. 

Nítján dauðsföll í Bandaríkjunum hafa verið rakin til veðursins síðustu daga og tvö í Kanada. 

Í gær og fyrradag var fjölda flugferða aflýst vítt og breitt um Bandaríkin en flugáætlanir voru að mestu komnar í eðlilegt horf í dag. Þó hafa farþegar sem komið hafa með vélum til flugvalla í New York kvartað yfir því að þurfa að dúsa úti á flugbrautum lengi áður en vélarnar fá að fara upp að flugstöðvarbyggingunni.

Ítarleg frétt CNN um veðrið.

 

Ískalt er nú í New York-borg.
Ískalt er nú í New York-borg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert