Handtóku ellefu prinsa

Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hefur lagt til ýmsar aðgerðir …
Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hefur lagt til ýmsar aðgerðir til að draga úr útgjöldum ríkisins. AFP

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa handtekið ellefu prinsa í landinu sem tóku þátt í mótmælum vegna niðurskurðaráforma í konungdæminu. Þetta kemur fram í frétt Sadq, fréttastofu sem rekin er af stjórnvöldum.

Ekki kemur fram hverjir prinsarnir eru en þeir eru sagðir hafa mótmælt fyrirhuguðum aðgerðum stjórnvalda í höllinni Qasr al-Hokm í Riyadh.

Niðurskurðartillögurnar fela í sér að hið opinbera hætti að greiða fyrir vatn og rafmagn konungsfjölskyldunnar. Prinsarnir eru auk þess sagðir hafa krafist bóta eftir að einn úr þeirra röðum var handtekinn og dæmdur fyrir glæp.

Prinsarnir voru fluttir í Ha'ir-fangelsið þar sem þeir munu dvelja þar til þeir verða kallaðir fyrir dómara. 

Í fréttinni segir að prinsunum hafi verið sagt að kröfur þeirra væru óraunhæfar. Þeir hafi hins vegar neitað að yfirgefa höllina. Öryggisverðir hallarinnar handtóku þá í kjölfarið.

Síðustu tvö ár hafa stjórnvöld í Sádi-Arabíu gripið til ýmissa aðhaldsaðgerða til að vega á móti lækkandi olíuverði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert