Óttast ófremdarástand í Austur-Kongó

Frá mótmælunum í Austur-Kongó um síðustu helgi.
Frá mótmælunum í Austur-Kongó um síðustu helgi. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfir miklum áhyggjum af þróun mála í Austur-Kongó eftir mótmæli sem fram fóru í höfuðborginni Kinshasa fyrir tæpri viku. Fimm eru sagðir hafa látist í átökum mótmælenda og hermanna en Sameinuðu þjóðirnar óttast að tala fallinna sé mun hærri.

„Starfsmenn okkar á vettvangi hafa ekki fengið aðgang að líkhúsum, sjúkrahúsum og fangelsum. Þeim hefur verið vísað frá mörgum stöðum af hernum,“ segir í tilkynningu frá Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna. Í henni kemur fram að hermenn hafi skotið á mannfjöldann og beitt táragasi. Í sumum tilvikum hafi fólk verið skotið af mjög stuttu færi.

Stjórnvöld í Austur-Kongó segja engan hafa fallið. Mótmælagöngurnar voru skipulagðar af kaþólsku kirkjunni í landinu. Kirkjan og hópar stjórnarandstæðinga krefjast þess að forsetinn Joseph Kabila, sem hefur verið við völd frá árinu 2001, lýsi því yfir að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri enn eitt kjörtímabilið. Forsetakosningar eiga að fara fram í landinu í ár. 

Kabila átti að hætta sem forseti í fyrra og þá átti að boða til nýrra kosninga. Af því varð ekki og hefur þeim nú verið frestað til ársloka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert