Bannon biður Trump afsökunar

Stephen Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Stephen Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta. AFP

Fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, Stephen Bannon, lýsti því yfir í kvöld að hann sæi eftir aðkomu sinni að nýrri bók, „Fire and Fury: Inside the Trump White House“ eftir blaðamanninn Michael Wolff, þar sem fjallað er á gagnrýninn hátt um ríkisstjórn forsetans. Þetta kemur fram á fréttavef viðskiptablaðsins Wall Street Journal. Talið er að Bannon hafi verið aðalheimildarmaður Wolffs við ritun bókarinnar.

„Stuðningur minn við forsetann og stefnu hans er ennfremur staðfastur,“ sagði Bannon í yfirlýsingu sinni. Sagði hann ennfremur að umfjöllun um ummæli hans um Donald Trump yngri, þar sem hann sagði hann hafa hugsanlega gerst sekan um landráð, væri ónákvæm og hefði dregið athyglina frá sögulegum árangri forsetans á fyrsta ári hans í embætti. Bannon dró ummælin þó ekki til baka eða sagði þau vera röng.

Bannon biður Trump-fjölskylduna afsökunar í yfirlýsingunni og lofar Donald Trump yngri sem bæði föðurlandsvin og góðmenni. Vísar hann því á bug að samvinna hafi átt sér stað á milli kosningateymis Trumps eldri og rússneskra stjórnvalda og segir rannsókn á því vera nornaveiðar. Samherjar Trumps hafa að undanförnu gagnrýnt Bannon harðlega.

Haft er eftir Bannon í bókinni að möguleg landráð Trumps yngri felist í fundi sem hann átti sumarið 2016 með rússneskum lögfræðingi sem tengist ráðamönnum í Rússlandi og fulltrúum kosningateymis föður hans þar sem lofað hafi verið upplýsingum sem hægt yrði að nota gegn Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins.

Wolff hefur hafnað ásökunum um að hafa brotið gegn loforðum um að nafngreina ekki heimildarmenn sína. Spurður um meintar villur í bókinni sagðist hann í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina NBC hafa ruglað saman Mike Berman og Mark Berman. Hann bæðist velvirðingar á því. Að öðru leyti sagði hann bókina rétta.

Donald Trump yngri hefur vísað því á bug að hann hafi breytt rangt með því að samþykkja að mæta á fundinn 2016 sem fram fór í höfuðstöðvum föður hans í New York. Þegar fréttir bárust af ummælum Bannons brást Trump eldri við með því að segja að Bannon hefði bæði misst vinnuna sem ráðgjafi hans og vitið. Sagði hann Bannon hafa grátið þegar honum var sagt upp síðasta sumar og grátbeðið um að fá starfið á nýjan leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert