Tuga saknað eftir árekstur skipa

Slysið átti sér stað undan ströndum Shanghai í Kína.
Slysið átti sér stað undan ströndum Shanghai í Kína. Kort/Google

32 er saknað eftir að olíuflutningaskip og fragtskip lentu í árekstri undan austurströnd Kína í gærkvöldi.

Olíuflutningaskipið Sanchi siglir undir panömskum fána. Það var að flytja um 136 þúsund tonn af olíu frá Íran. Við áreksturinn kviknaði eldur um borð.

Kínverska samgönguráðuneytið segir að þeir sem saknað er séu úr áhöfn Sanchi, þrjátíu Íranar og tveir menn frá Bangladess. Í áhöfn fragtskipsins var 21 og tókst að bjarga þeim öllum.

„Sanchi flýtur nú logandi um. Það er olíubrák og við erum að reyna björgunaraðgerðir,“ sagði í tilkynningu samgönguráðuneytisins. 

Á mynd frá CGTN-sjónvarpsstöðinni, sem birt var á Twitter og sjá má hér að neðan, sést hvar mikinn reyk leggur frá skipinu.

Áreksturinn varð um 300 kílómetra undan ströndum Shanghai. Átta kínversk skip eru á leið á vettvang til að aðstoða við björgun. Þá hafa Suður-Kóreumenn einnig sent björgunarskip á vettvang sem og þyrlur. 

Í frétt Reuters kemur fram að olíuflutningaskipið hafi verið á leið frá Kharg-eyju, sem tilheyrir Íran, og til Daesan í Suður-Kóreu.

Fragtskipið er frá Hong Kong. Það var að flytja korn frá Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert