117 gráða munur milli heitasta og kaldasta staðar

Öfgar í veðri: Kristina Mladenovi (t.h.) hætti keppni á opna ...
Öfgar í veðri: Kristina Mladenovi (t.h.) hætti keppni á opna ástralska meistaramótinu í tennis vegna hitans. Heimilislaus maður í Washington sankaði að sér hlýjum fötum og ábreiðum vegna kuldakastsins í borginni.

Ekki hefur mælst meiri hiti í Sydney í tæp áttatíu ár. Nístingskuldi hefur hins vegar verið um mestalla austurströnd Bandaríkjanna og óvenjukalt í Flórída. „Því hefur lengi verið haldið fram að öfgar í veðri sem þessar fylgi veðurfarsbreytingum,“ segir Árni Sigurðsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hann segir ástandið nú líklega dæmi um það. 

Hásumar er í Ástralíu en vetur í Bandaríkjunum. 

Um helgina mældist hitinn 47,3°C í Sydney í Ástralíu og var þá hvergi hærri í heiminum öllum. Hitamet frá árinu 1939, er hitinn fór upp í 47,8°C, stendur þó enn. Áfram er spáð miklum hita í landinu. 

Kuldatíð hefur hins vegar verið óvenjumikil víða í Bandaríkjunum, aðallega í norðausturhluta landsins. Í fjöllunum í New Hampshire hefur frostið verið gríðarlegt, um -70°C með vindkælingu, rúmlega 30 gráður án hennar, líkt og fram kemur m.a. í frétt New York Times.  Það skipaði Washington-fjalli í hóp köldustu staða heimsins á laugardag, ásamt Eureka Nunavut í Kanada og Jakutsk í Rússlandi. 

Gosbrunnur í Bryant-garði í New York í klakaböndum um helgina.
Gosbrunnur í Bryant-garði í New York í klakaböndum um helgina. AFP

Árni segir að mjög kalt sé í Kanada og í raun sé það allvanalegt á þessum árstíma. Það sem líklega sé hvað óvenjulegast við ástandið eru tungur af heimskautalofti frá norðurpólnum sem nái langt suður á bóginn eða alla leið til Mexíkóflóa. Hann segir að kuldakastið vestra sé ekki yfirstaðið. Mikill kuldi sé áfram í kortunum.

 Árni bendir ennfremur á að þetta kalda loft hafi áhrif á lægðakerfin við Ísland. 

Bandaríkjamenn hafa síðustu daga glímt við afleiðingar vetrarveðursins. Þannig byrjaði síðasta vika á miklum hríðarbyl og í kjölfarið frysti hratt og mikið. Sem dæmi þá fyllgust götur í Boston af ísköldu vatni og íshröngli sem m.a. hreif með sér ruslagáma. Í borginni Revere í Massachusetts grófust bílar á kaf í flóðvatnið. Í gær mældist -15,5°C í New York. Talið er að rekja megi 22 dauðsföll til óveðursins í Bandaríkjunum síðustu daga. 

Árið 2018 byrjar því á nokkuð öfgakenndu veðri. Evrópubúar hafa ekki farið varhluta af því. Skíðafólk hefur orðið innlyksa á skíðasvæðum í frönsku Ölpunum svo dæmi sé tekið og herinn var kallaður út á Spáni til að aðstoða vegfarendur sem sátu fastir í snjó í nágrenni Madríd.

Kuldamet hafa einnig verið slegin í Asíu. Í Bangladess, þar sem alla jafna ríkir heittemprað loftslag, mældist -2,6°C frost í dag og hafa yfirvöld þurft að bregðast við m.a. með því að útdeila þúsundum teppa til fátækra. 

Ekki hefur mælst kaldara í landinu frá því að mælingar hófust árið 1948. Fyrra metið var 2,8°C hiti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina