64 farast úti fyrir stöndum Líbíu

Hælisleitendur koma til hafnar i Catania með ítölsku strandgæslunni í …
Hælisleitendur koma til hafnar i Catania með ítölsku strandgæslunni í morgun. AFP

Talið er að allt að 64 hælisleitendur hafi farist úti fyrir ströndum Líbíu um helgina eftir að bátur þeirra sökk. Reuters-fréttastofan hefur eftir forsvarsmönnum mannréttindasamtaka að 86 af þeim 150 sem voru í gúmmíbátnum hafi verið bjargað og þeir fluttir til Ítalíu.

„Fjöldi barna var í hópi þeirra sem taldir eru af,“ sagði í Twitter-skilaboðum frá samtökunum Læknum án landamæra á sjó. „Meðal þeirra sem var bjargað var þriggja ára barn sem missti móður sína og kom því eitt, sem og ellefu manna fjölskylda sem nú er orðin þriggja manna fjölskylda.“

Reuters hefur eftir ítölsku strandgæslunni að flugvél á eftirlitsflugi hafi séð til hælisleitendanna á laugardagsmorgun, en talið er að gúmmíbátur þeirra hafi sokkið eftir að gat kom á hann.

290 flótta­mönn­um var bjargað und­an strönd­um Líbíu í gær, en það fólk var um borð í tveim­ur bát­um og létu tvær kon­ur lífið áður en björg­un­ar­menn náðu til þeirra.

Frá því að fyrr­ver­andi ein­ræðis­herr­ann Moa­mer Kadhafi lét lífið árið 2011 hef­ur flótta­manna­straum­ur­inn frá Líb­íu til Evr­ópu stór­auk­ist. Árið 2016 létu 3.116 flótta­menn lífið á leið sinni til Evr­ópu og talið er að 2.832 hafi farist á þessari leið í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert