Biðu í sólarhring með leit að Jemtland

Janne Jemtland býr í smábænum Brumunddal í Noregi. Hennar hefur …
Janne Jemtland býr í smábænum Brumunddal í Noregi. Hennar hefur verið saknað í tíu sólarhringa.

Eiginmaður hinnar norsku Janne Jemtland, sem hvarf sporlaust aðfaranótt 29. desember, tilkynnti hvarfið daginn eftir. Lögreglan beið hins vegar í sólarhring með að hefja leit að henni. Ekkert hefur til hennar spurst í tíu daga.

Á blaðamannafundi sem lögreglan hélt í hádeginu í dag kom fram að engar nýjar vísbendingar hefðu komið fram við rannsókn málsins. Enginn lægi undir grun um að hafa skaðað Jemtland eða vita hvar hún er niðurkomin.

Jemtland er 36 ára tveggja barna móðir. Hún var í jólaboði á fjórða degi jóla og fór þaðan í leigubíl ásamt eiginmanni sínum að heimili þeirra í bænum Brumunddal um klukkan tvö um nóttina. Hún er talin hafa yfirgefið heimilið skömmu síðar.

Íslenskur prestur starfar í Brumunddal. Sjá viðtal við hann vegna málsins hér.

Fjarskiptaturn í miðbæ Brumunddal, í um 12 kílómetra fjarlægð frá heimili hennar, nam merki frá farsíma hennar um klukkan hálfsex um morguninn. Lögreglan segir ekki hægt að greina út frá því nákvæmlega hvar Jemtland var stödd á þeim tíma.

Í síðustu viku fann maður sem var á göngu með hund sinn spor og lét lögreglu vita. Á fimmtudag fannst svo blóð og á laugardag fannst meira blóð í um kílómetra fjarlægð frá fyrri fundarstaðnum. Í báðum tilvikum fannst blóð skammt frá vegi. Staðfest hefur verið að blóðið er úr Jemtland.

Mikið hefur snjóað á svæðinu síðustu daga sem gerir leit að vísbendingum enn erfiðari.

„Jannei Jemtland er enn saknað. Við vonumst enn til að finna hana á lífi,“ sagði André Lillehovde van der Eynden, saksóknari lögreglunnar, á blaðamannafundi í dag. 

Vill svör frá lögreglunni

Í frétt VG segir að eiginmaður Jemtland hafi tilkynnt hvarf hennar klukkan 9.29 að morgni laugardagsins 30. desember. Þá var liðinn sólarhringur frá því hún hvarf. Lögreglan mat það svo að ekki væri brýnt á þeim tímapunkti að hefja leit. Daginn eftir segist hún hafa fengið símtal sem varð til þess að ákveðið var að hefja umfangsmikla leit þegar í stað.

Það liðu því um tveir sólarhringar frá hvarfi Jemtland þar til farið var að leita að henni. 

Lögreglan staðfesti á blaðamannafundinum að eiginmaðurinn hefði spurt hvers vegna leitin hefði ekki hafist um leið og hvarf hennar var tilkynnt. Verið væri að fara yfir það hjá lögreglunni.

Frétt norska ríkissjónvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert