Mega ekki giftast rohingjum

Flóttamannabúðir rohingja í Bangladess eru yfirfullar.
Flóttamannabúðir rohingja í Bangladess eru yfirfullar. AFP

Dómstóll í Bangladess staðfesti ákvörðun stjórnvalda um að íbúum landsins sé bannað að ganga í hjónaband með rohingjum. Hundruð þúsunda rohingja hafa flúið til landsins undan ofsóknum frá nágrannaríkinu Búrma síðustu mánuði. 

Faðir pilts sem hafði gifst rohingja-stúlku í september höfðaði dómsmál gegn ríkinu vegna bannsins. Bannið var þegar í gildi er parið gifti sig.

Það var raunar sett á árið 2014 og er ætlað að koma í veg fyrir það að flóttafólk úr hópi rohingja geti öðlast ríkisborgararétt í Bangladess.

Ungu hjónin lögðu á flótta í kjölfar giftingarinnar og því var það faðir eiginmannsins sem höfðaði málið. Við broti á banninu liggja ströng viðurlög eða allt að sjö ára fangelsi. 

Nú hefur hæstiréttur Bangladess komist að því að bannið sé löglegt og hefur krafið föðurinn um að greiða 1.200 dollara í málskostnað. Þá krafðist faðirinn þess að handtökuskipun á hendur syni hans yrði ómerkt en á það féllst dómstólinn ekki heldur.

Ver ákvörðun sonar síns

Um 655 þúsund rohingjar hafa flúið til Bangladess frá því í ágúst en á hóf stjórnarher Búrma harðar ofsóknir gegn þeim. Þegar voru um 200 þúsund rohingjar fyrir í Bangladess.

Hjálparsamtök segjast vita um tilvik þar sem Bangladessar bjóðast til að giftast ungum rohingjakonum svo þær geti komist út úr yfirfullum flóttamannabúðum í landinu. 

Faðirinn sagði áður en dómurinn féll að sonur hans hefði haft rétt til að giftast hinni átján ára gömlu rohingjastúlku. Hann hafnaði því að ráðahagurinn væri til þess gerður að stúlkan fengi ríkisborgararétt í Bangladess. „Ef Bangladessar geta gifst kristnum og fólki sem aðhyllist sömu trú hvers vegna má sonur minn þá ekki giftast rohingja?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert