Oprah sögð íhuga forsetaframboð

Mörgum þykir Oprah vænlegt efni í forsetaframbjóðanda.
Mörgum þykir Oprah vænlegt efni í forsetaframbjóðanda. AFP

Þáttastjórnandinn Oprah Winfrey er sögð íhuga það alvarlega að bjóða sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna árið 2020. Það er fréttavefur CNN sem hefur þetta eftir tveimur nánum vinum hennar.

Oprah varð á Golden Globe-verðlaunahátíðinni í nótt fyrsta þeldökka konan til að hljóta Cecil B. DeMille-verðlaunin, en um er að ræða heiðursverðlaun hátíðarinnar. Þakkarræða Oprah var mjög tilfinningaþrungin og innblásin af #metoo-byltingunni. Ræðan vakti mikla athygli og virðist hafa ýtt undir þá hugmynd að Oprah kunni að bjóða sig fram til forseta.

Samkvæmt heimildum CNN hafa vinir og samstarfsmenn hennar hvatt hana á síðustu mánuðum til að gefa kost á sér, en hún sé hins vegar enn ekki búin að gera upp hug sinn. Talsmaður hennar hefur þó ekki svarað fyrirspurn um málið.

Kosningabarátta þeirra einstaklinga sem hyggjast gefa kost á sér sem forsetaefni demókrata hefst líklega ekki fyrr en seint á þessu ári, en nokkrir eru þó strax farnir að þreifa fyrir sér. Bent hefur verið á að frægð Oprah og auður gæti gert hana að vænlegum og sterkum frambjóðanda fyrir demókrata. Það gæti þó haft áhrif að Bandaríkjamenn kusu sér síðast sjónvarpsstjörnu sem forseta og óvíst er hvort þeir geti hugsað sér að gera það aftur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert