N-Kórea á Ólympíuleikana

Sendinefnd á vegum yfirvalda í Norður-Kóreu mun mæta á Vetrarólympíuleikana sem fara fram í Suður-Kóreu í febrúar. Tilkynnt var um þetta í morgun.

Tilkynningin kemur í kjölfar fregna um að ráðamenn ríkjanna tveggja hafi átt sinn fyrsta fund í meira en tvö ár. 

Suður-Kórea ætlar að standa fyrir fjölskyldusameiningum fyrir fjölskyldur sem urðu aðskildar á tímum Kóreustríðsins á meðan Ólympíuleikunum stendur. Málið er gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa ríkjanna beggja og hafa stjórnvöld í suðri ítrekað þrýst á fleiri slíka fjölskyldufundi. 

Yfirvöld í Seúl hafa hvatt til þess að íþróttamenn frá báðum Kóreuríkjunum gangi saman inn á leikvanginn á opnunarhátíð leikanna. Ekki er vitað hvernig yfirvöld í Norður-Kóreu hafi brugðist við þeirri beiðni. Ef af verður þá verður það í fyrsta skipti síðan á Vetrarólympíuleikunum árið 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert