Trump efast um að Oprah ætli í forsetann

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist kunna vel við bandaríska þáttastjórnandann og milljarðamæringinn Oprah Winfrey en kveðst efast um að hún bjóði sig fram gegn sér til forseta árið 2020.

„Ég kann vel við Oprah,“ sagði Trump og bætti við að hann hefði komið fram í sjónvarpsþætti hennar. „Ég þekki hana mjög vel og ég tel ekki að hún ætli að bjóða sig fram.“

Winfrey flutti sannkallaða þrumuræðu við afhendingu Golden Globe-verðlaunanna á sunnudag, er hún varð fyrsta þeldökka konan til að hljóta Cecil B. DeMille-verðlaunin.

Þakk­arræða Oprah var mjög til­finn­ingaþrung­in og inn­blás­in af #met­oo-bylt­ing­unni. Ræðan vakti mikla at­hygli og virðist hafa ýtt und­ir þá hug­mynd í Hollywood að Oprah kunni að bjóða sig fram til for­seta.

Ivanka Trump, dóttir forsetans, hefur þá verið gagnrýnd af mörgum fyrir að lofa ræðu Winfrey, en hún sagði ræðu hennar vera bæði „valdeflandi og innblásin“.

„Sameinumst nú öll, karlar og konur og segjum #Nógkomið (e.#TIMESUP!)," sagði forsetadóttirin á Twitter, en Time's Up er herferð gegn kynferðislegri áreitni í kvikmyndaiðnaðinum og á öðrum vinnustöðum.

Gagnrýnin í garð Trumps hefur m.a. beinst gegn því að gefi Winfrey kost á sér til forseta þá bjóði hún sig líklega fram gegn sitjandi forseta, á meðan að aðrir hafa gagnrýnt að hún styðji bæði Time's Up-herferðina og Trump forseta á sama tíma, en hann hefur verið ásakaður um kynferðislega áreitni af fjölda kvenna.

Þáttastjórnandinn Oprah Winfrey stillir sér upp með Cecil B DeMille …
Þáttastjórnandinn Oprah Winfrey stillir sér upp með Cecil B DeMille heiðursverðlaunin. Vangaveltur eru nú uppi um hvort hún ætli í forsetaframboð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert