Nýnasisti fékk fimm ára dóm

Brandon Russel
Brandon Russel Pinellas County Sheriff’s Office

Nýnasisti var í gær dæmdur í fimm ára fangelsi í Bandaríkjunum fyrir vörslu sprengjuefnis og búnaðar ætlaðs til sprengjugerðar.

Brandon Clint Russell, 22 ára gamall íbúi í Tampa, Flórída, stofnaði hryðjuverkahópinn Atomwaffen á sínum tíma og var með innrammaða mynd af  hryðjuverkamanninum Timothy McVeigh, sem myrti 168 manns í sprengjutilræði í Oklahomaborg árið 1995, uppi á vegg í svefnherbergi sínu. 

Russell er einn fjölmargra öfgahægrimanna sem hafa komist í kast við lögin í Bandaríkjunum undanfarna mánuði. Má þar nefna hvítan mann sem tók þátt í göngu hvítra þjóðernissinna í Charlottesville í ágúst en var nýverið ákærður fyrir tilraun til þess að eyðileggja Amtrak-lest í Nebraska.

Brandon Clint Russell játaði við yfirheyrslur að hafa átt sprengiefnið og búnaðinn en hann fannst á heimili hans í Tampa 27. september. Búnaðurinn fannst þegar lögreglan rannsakaði tvöfalt manndráp í íbúðinni sem Russel leigði með Devon Arthurs, sem er grunaður um morðin, og fórnarlömbunum tveimur.

Í kæli í bílskúr sem fylgir íbúðinni fannst sprengiefnið HMTD (Hexamethylene Triperoxide Diamine) ásamt fjölbreyttu úrvali af sprengiefni og búnaði til þess nota við sprengjugerð.

Í herbergi Russels fannst áróður nýnasista og samtaka sem trúa á yfirburði hvíta kynstofnsins. 

McVeigh var tekinn af lífi árið 2001 fyrir hryðjuverkin í Oklahoma en yfir 600 særðust í árásinni. Hann er hetja í augum margra þeirra sem styðja öfgahægristefnu. 

Í fataskáp Russells fannst einnig hermannabúningur hans, byssur og skotfæri, auk fatnaðar í felulitum sem skæruliðar og hermenn klæðast. Fatnaðinn var búið að merkja með nafni og merki Atomwaffen, hryðjuverkahópsins sem hann stofnaði ásamt félögum sínum.

Í fyrradag var birt ákæra á hendur Taylor Michael Wilson, 26 ára íbúa í Missouri, sem er félagi í samtökum hvítra þjóðernissinna og tók þátt í göngunni í Charlottesville. Hann er ákærður af bandarísku alríkislögreglunni fyrir hryðjuverk með því að hafa tekið í neyðarhemil lestarinnar. Wilson var vopnaður þegar hann var handtekinn um borð og látinn laus gegn tryggingu að lokinni yfirheyrslu. Síðar var gefin út handtökuskipun á hendur honum af hálfu FBI en við húsleit hjá Wilson fundust fjölmörg skotvopn og tengsl við samtök nýnasista og færslur á netinu þar sem hann sagðist vilja drepa svarta. 

Nýleg skýrsla bandarískra yfirvalda sýnir að ofbeldisfullir öfgasinnar hafa framið 85 árásir frá því 12. september 2001 til loka árs 2016. Árásir sem hafa kostað 225 mannslíf. Af fórnarlömbunum voru 106 einstaklingar drepnir af öfgasinnuðum hægrimönnum í 62 árásum en 119 hafa verið drepnir af öfgafullum íslamistum í 23 árásum.

mbl.is