Assange veittur ríkisborgararéttur í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa veitt Julian Assange, stofnanda Wikileaks, ríkisborgararétt í landinu.

Assange hefur dvalið í sendiráði Ekvador í London í fimm ár. Maria Fernanda Espinosa, utanríkisráðherra Ekvador, segir að með því að veita honum ríkisborgararétt 12. desember síðastliðinn vonuðust yfirvöld í Ekvador til þess að Assange yrði gerður að erindreka ríkisins og gæti þannig yfirgefið sendiráðið án þess að verða handtekinn. Beiðnin var lögð fram 20. desember en var hafnað af Bretum daginn eftir.

Á blaðamannafundi í dag sagði hún að yfirvöld í Ekvador myndu ekki beita bresk yfirvöld þrýstingi til að endurskoða beiðnina vegna „þess góða sambands sem ríkir milli okkar og Bretlands“.

Breska utanríkisráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að „Ekvador viti að leiðin til að leysa málið er að Assange yfirgefi sendiráðið og horfist í augu við réttvísina“.

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hefur dvalið í sendiráði Ekvador í …
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hefur dvalið í sendiráði Ekvador í London í fimm ár. AFP
Maria Fernanda Espinosa, utanríkisráðherra Ekvador, á blaðamannafundi í Quito í …
Maria Fernanda Espinosa, utanríkisráðherra Ekvador, á blaðamannafundi í Quito í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert