Myndbirting hefur afleiðingar

Logan Paul.
Logan Paul. Af loganpaul.com

YouTube hefur slitið viðskiptatengslum við bandarísku YouTube-stjörnuna Logan Paul eftir að hann birti myndskeið á rás sinni á YouTube sem sýndi lík manns sem framdi sjálfsvíg í Japan.

Rás Pauls hefur verið fjarlægð af mælt með dagskrá YouTube – Google Preferred – en þar eru miklir tekjumöguleikar með sölu auglýsinga. YouTube hefur einnig tilkynnt um að önnur verkefni með Paul hafi verið stöðvuð.

Paul birti myndskeiðið af líkinu 31. desember og má segja að allt hafi orðið vitlaust í netheimum. Í myndskeiðinu mátti sjá Paul og vini hans í Aokigahara-skóginum við rætur Fuji fjalls. Fólk í sjálfsvígshugleiðingum fer mjög oft í skóginn og lýkur ætlunarverki sínu og fremja allt að eitt hundrað sjálfsvíg þar á hverju ári.

Frétt BBC

Milljónir horfðu á myndskeiðið á YouTube áður en lokað var fyrir aðgang að því og áttu margir ekki til orð yfir ákvörðun Pauls að birta það. „Vanvirðing“ og „Viðbjóður“ voru ummæli sem margir létu falla. Logan Paul, sem er með yfir 15 milljónir fylgjenda á YouTube, baðst afsökunar á Twitter og segir að þetta hafi verið mistök. Hann birti síðar myndskeið þar sem hann biður afsökunar og segir að hann hafi aldrei átt að birta myndskeiðið. „Ég hefði átt að leggja myndavélarnar frá mér og hætta upptöku þegar ég sá hvað við vorum að upplifa.“ „Ég skammast mín fyrir sjálfan mig,“ bætti hann við. „Ég varð fyrir vonbrigðum með mig sjálfan,“ segir Logan Paul í afsökunarmyndskeiðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert