Íslensk kona ósátt við ummæli Trumps

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Íslensk kona sem býr í Seattle í Bandaríkjunum er afar ósátt við ummæli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta en hann spurði á fundi með þingmönnum í Hvíta húsinu: „Hvers vegna er allt þetta fólk frá þessum skítalöndum að koma hingað?“

Þar átti hann við Haítí, El Salvador og ríki Afríku.

Konan, sem heitir Kristjana Ásbjörnsdóttir, fékk græna kortið í Bandaríkjunum í gegnum happdrætti. Eftir að forsetinn lét ummælin falla fékk hún það á tilfinninguna að hann vildi frekar fá til landsins fólk frá löndum á borð við Ísland.

Að því er kemur fram hjá bandaríska fréttamiðlinum Kiro7 stundaði hún framhaldsnám í Washingtonháskóla en hefur einnig búið og starfað í Afríku.

„Þegar ég vann í happdrættinu trúði ég því varla. Þetta hefur verið frábær tími og opnað mjög margar dyr fyrir mig,“ sagði Kristjana á samfélagsmiðli, og var síður en svo ánægð með ummæli Trumps um innflytjendur.

Forsetinn hefur einnig látið hafa eftir sér að hann vilji frekar fá til Bandaríkjanna fólk frá löndum á borð við Noreg.

Frá mótmælagöngu vegna innflytjendastefnu Trumps á síðasta ári.
Frá mótmælagöngu vegna innflytjendastefnu Trumps á síðasta ári. AFP

„Ég kem frá landi sem er mjög svipað Noregi en hef sterk tengsl við löndin sem mig grunar að séu í síðarnefnda flokknum og ég komst í mikið uppnám út af því,“ sagði hún.

„Það voru önnur ummæli um að happdrættið laði að sér versta fólkið frá öðrum löndum, þannig að fólkið er ekki bara það versta heldur eru löndin einnig þau verstu. Mér finnst þessi hugsunarháttur ekki góður.“

Kristjana telur að með því að binda enda á happdrættið gætu Bandaríkin misst af nýjum sögum af innflytjendum sem hafa náð langt. „Ég vil ekki halda því fram að það sé aðeins ein leið til að vera góður innflytjandi eða rétti innflytjandinn, þannig að þetta truflar mig,“ sagði hún um ummæli Trumps.

Hún kveðst hafa ferðast til Íslands, útfyllt fjölda skjala, farið í læknisskoðun, auk þess sem athugað var hvort hún væri með hreint sakavottorð. Hún hafi borgað fyrir þetta allt, þannig að eftir að hafa unnið í happdrættinu hafi hún þurft að leggja ýmislegt á sig.

„Það er engin ein leið til að nýta tækifærið sitt hérna. Allir sem taka þátt í happdrættinu líta á það sem tækifæri til að ná árangri, hvað sem það þýðir fyrir þá sjálfa.“

mbl.is
Byggingarstjóri
Byggingarstjóri 659 5648 Allar byggingarframkvæmdir sem krefjast byggingale...
EAE Bilalyftur
Bílalyftur allar gerðir, eigum á lager 4 tonna 2 pósta og 3 t í gólf og 1 metra ...
Skrifstofuhúsnæði til leigu
Tvær 12 fm. skrifstofur til leigu í nágrenni við Hlemm. Geta leigst saman. Aðgan...