Norðmenn ekki spenntir fyrir boði Trump

AFP

Norðmenn virðast gefa lítið fyrir áhuga Donald Trump á að bjóða þá velkomna til Bandaríkjanna ef marka má ummæli sem látin hafa verið falla á Twitter í dag. Forsetinn á að hafa kallað löndin Haítí, El Salvador og ríki Afríku skítalönd á fundi sínum með þingmönnum á forsetaskrifstofunni í gær þar ræða átti lausn á innflytjendamálum landsins. Í framhaldinu mun hann hafa lagt til að Bandaríkin byðu innflytjendur frá löndum eins og Noregi frekar velkomna.

„Hvers vegna er allt þetta fólk frá þess­um skíta­lönd­um að koma hingað?“ er forsetinn sagður hafa spurt. Sjálfur hefur hann þó neitað að hafa talað illa um Haítíbúa.

„Ég er Norðmaður sem naut þess að stunda nám og starfa um tíma í Bandaríkjunum. Það eina sem gæti laðað mig að því að flytjast alfarið til lands ykkar er líflegt fjölmenningarsamfélagið. Ekki taka það í burtu,“ skrifaði Jan Egeland, forstjóri norsku flóttamannastofnunarinnar, á Twitter í dag.

„Hvers vegna ætti ég að skipta á sanngjörnu heilbrigðiskerfi (þar á meðal geðheilbrigðiskerfi), framhaldsmenntun á sanngjörnu verði, 49 vikna fæðingarorlofi fyrir mæður og feður og að lágmarki 25 sumarfrísdögum á ári, fyrir geðsjúkling með stóran hnapp sem vill taka réttindin af mér?“ spurði annar Norðmaður.

Utanríkisráðherra Noregs hefur fram að þessu ekki viljað segja neitt um ummæli Trump.

Í frétt AFP kemur fram að á árið 2016 hafi 502 Norðmenn flust til Bandaríkjanna, 59 færri en árið þar á undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert