Tveir bílar á heimili Janne rannsakaðir

Janne Jemtland býr í smábænum Brumunddal í Noregi. Hennar hefur …
Janne Jemtland býr í smábænum Brumunddal í Noregi. Hennar hefur verið saknað frá aðfararnótt 29. desember.

Tveir fólksbílar voru fjarlægðir af heimili norsku konunnar Janne Jemt­land til rannsóknar í dag. Hennar hefur nú verið saknað í 14 sólarhringa. Norska lögreglan hefur einnig hafið rannsókn á heimili hennar. Fréttamiðillinn Verdens Gang greinir frá.  

Ekkert hefur spurst til konunnar sem hvarf af heimili sínu aðfaranótt 29. desember síðastliðinn og lögreglan virðist hafa úr litlu að moða. Lögreglan er gagnrýnd fyrir að hafa ekki rannsakað heimili hennar fyrr en þar sást hún síðast á lífi. Lögreglan hefur ekki gefið upp hvort einhver liggi undir grun.    

Janne virðist hafa farið brott af heimili sínu aðfaranótt 29. desember síðastliðins eftir að hún kom heim úr veislu með manni sínum. Blóð hefur fundist úr henni á tveimur stöðum með eins kílómetra millibili. Spor og blóð úr henni fannst í um 12 kílómetra radíus frá heimili hennar.

Viðtæk leit hefur staðið yfir að henni og vísbendingum í málinu. Björgunarsveitarfólk, leitarhundar og þyrlur ásamt lögreglu hafa meðal annars tekið þátt í leitinni að henni. Vonin hefur hins vegar dvínað um að hún finnist á lífi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert