Fátækt kínverskra barna vekur reiði

Wang litli var ískaldur er hann mætti í skólann 8. …
Wang litli var ískaldur er hann mætti í skólann 8. janúar. Mynd/Twitter

Umræða um fátækt barna í dreifðum byggðum í Kína komst í hámæli í vikunni, eftir að myndir birtust af átta ára gömlum kínverskum dreng, sem var illa klæddur í miklu frosti og leit út fyrir að vera nánast frosinn er hann mætti í skólann. BBC fjallar um málið.

Drengurinn, sem heitir Wang, hefur verið kallaður „ís-strákurinn“ af kínverskum samfélagsmiðlanotendum, en hann býr í Ludian-sýslu í Yunnan-héraði í suðvesturhluta Kína.

Ríkisrekna fréttastofan China News Service greindi frá því að drengurinn þyrfti að ganga 4,5 kílómetra aðra leið til þess að komast í skólann, en það taki hann um klukkutíma. Þann dag sem myndin af honum var tekin var níu gráða frost úti.

Tugir þúsunda hafa deilt myndum af drengnum, þar sem hár hans er frosið og kinnar hans og hendur bólgnar vegna kuldans. Kennari Wangs tók myndirnar 8. janúar og sendi þær á skólastjórann og nokkra aðra, samkvæmt kínverskum miðlum. Síðan fóru myndirnar á flug í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum, undir kassamerkinu #IceBoy.

Wang litli er núna kominn í hlýrri úlpu, sem var …
Wang litli er núna kominn í hlýrri úlpu, sem var gjöf frá ungliðahreyfingu Kommúnistaflokksins. AFP

Margir reiðir yfirvöldum

Þrátt fyrir að hafa komið í tíma nánast frosinn, mun Wang litli vera afburðanámsmaður og hafa margir notendur á samfélagsmiðlum hrósað honum fyrir þrautseigju hans.

„Þetta barn veit að menntunin getur breytt örlögum hans,“ segir einn notandi á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo.

Aðrir hafa vorkennt drengnum eða reiðst yfirvöldum.

„Hvað eru stjórnvöld í Yunnan-héraði að gera í þessu?“ spurði einn í reiðilegum tón. Enn aðrir óskuðu eftir því að fá að komast í samband við drenginn, til þess að geta gefið honum föt og peninga.

Aðskilinn frá foreldrum sínum

Blaðamenn frá vefsíðunni Pear Video heimsóttu Wang litla til að kynna sér aðstæður hans. „Heimili hans er búið til í leðju og múrsteinum og er í niðurníðslu,“ sagði í umfjöllun Pear Video.

Umfjöllunin varpaði ljósi á það að Wang litli er einn af tugmilljónum kínverskra barna í hinum dreifðari byggðum sem hafa verið „skilin eftir“ af foreldrum sínum, sem neyðst hafa til þess að flytja í borgir til þess að auka möguleika sína á því að sjá fjölskyldum sínum farborða.

Samkvæmt umfjöllun BBC um málið er talið að 60 milljónir kínverskra barna alist upp í kínverskum sveitum, á meðan að foreldrar þeirra búa og vinna annars staðar við framleiðslustörf. Þetta er ein birtingarmynd þeirrar miklu efnahagsuppsveiflu sem orðið hefur í Kína.

Wang gengur í skólann.
Wang gengur í skólann. AFP

Wang býr með ömmu sinni og systur. Hann sér föður sinn sjaldan, en hann er farandverkamaður sem kemst einungis heim á fjögurra eða fimm mánaða fresti. Drengurinn segir einnig frá því að móðir hans hafi yfirgefið hann þegar hann var mjög ungur.

Saga Wangs hefur leitt til ákalls um að meira verði gert til þess að hjálpa börnum sem eru í sambærilegum aðstæðum. Viðbrögð hafa verið nokkur.

Ríkisrekna CCTV-sjónvarpsstöðin greindi frá því að ungliðahreyfing Kommúnistaflokksins í héraðinu hefði þegar veitt skóla Wangs litla fjárhagsstuðning upp á 100.000 yuan eða ríflega 1,5 milljónir íslenskra króna, til að allir nemendur gætu eignast betri föt og hægt væri að betrumbæta kyndikerfi skólabyggingarinnar.

Tugmilljónir fátækra barna í Kína hafa verið skildar eftir af …
Tugmilljónir fátækra barna í Kína hafa verið skildar eftir af foreldrum sínum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert