Væru ein stærstu mistök Bandaríkjastjórnar

Donald Trump Bandaríkjaforseti krafðist þess í gær að ákvæði kjarnorkusamningsins …
Donald Trump Bandaríkjaforseti krafðist þess í gær að ákvæði kjarnorkusamningsins við Íran yrðu hert á næstunni. AFP

Það væru alvarleg mistök hjá Donald Trump Bandaríkjaforseta að segja upp kjarnorkusamkomulagi Vesturvelda við Íran. Þetta segir Sergei Ryabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands.

Trump krafðist þess í gær að ákvæði samningsins yrðu hert á næstunni, á sama tíma og hann tilkynnti að hann hygðist framlengja samkomulagið um 120 daga. Bandaríkin gerðu samkomulagið við Íran, ásamt öðrum fastaríkjum Sameinuðu þjóðanna, Þýskalandi og Evrópusambandinu árið 2015.

Varaði Trump við því að þetta yrði í síðasta skipti sem hann framlengdi samkomulagið og krafðist þess að Bandaríkjaþing og önnur ríki notuðu tímann til að útbúa nýjan og betri kjarnorkusamning við Íran.

Stjórnvöld í Íran greindu frá því í morgun að þau höfnuðu öllum breytingum á kjarnorkusamkomulaginu við Vesturlönd að því er BBC greinir frá. Segja þau Bandaríkin hafa farið yfir strikið með því að setja þvinganir á klerkinn Ayatollah Sadeq Amoli-Larijani, sem bandarísk stjórnvöld tilkynntu í gær.

Ryabkov gagnrýndi orð Trumps í samtali við rússnesku Interfax-fréttastofuna. „Við erum smám saman að komast að þeirri niðurstöðu að ákvörðun hafi verið tekin innan Bandaríkjastjórnar um að segja sig frá samningnum,“ sagði Ryabkov. „Þetta gætu orðið ein stærstu mistök Bandaríkjanna í utanríkismálum og væri verulegur misreikningur á bandarískum stefnumálum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert