Lítill pandahúnn slær í gegn

Yuang Meng bræðir alla sem berja hann augum.
Yuang Meng bræðir alla sem berja hann augum. AFP

Yuan Meng er fyrsti pandahúnninn sem fæðist í Frakklandi, en hann var sýndur almenningi í fyrsta skipti í Beauval-dýragarðinum þar í landi á laugardag.

Yuan Meng er fimm mánaða en það var Brigitte Macron, eiginkona Emmanuel Macron Frakklandsforseta, sem gaf honum nafn í desember síðastliðnum. Nafnið er að sjálfsögðu kínverskt en það þýðir: draumur sem rætist.

Húnninn er strax orðinn stjarna dýragarðsins.
Húnninn er strax orðinn stjarna dýragarðsins. AFP

Yuang Meng er að sjálfsögðu orðinn stjarna dýragarðsins þrátt fyrir að hafa aðeins verið til sýnis í um sólarhring, en fólk ferðaðist langar vegalengdir til að berja húninn augum á frumsýningardaginn, að því er fram kemur í frétt BBC.

AFP

Dýralæknir garðsins sagði húninn hafa heimsótt hin nýju heimkynni síðastliðna tíu daga til að aðlagast þeim hægt og rólega, en almenningur fékk að sjá hann í fyrsta skipti í gær.

Litli húnninn ásamt móður sinni.
Litli húnninn ásamt móður sinni. AFP

Einn gestur dýragarðsins sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að honum liði eins og hann væri að taka þátt í sögulegum atburði. „Við vöknuðum klukkan þrjú í morgun. Sonur minn vildi svo mikið sjá húninn.“

Mjög erfitt er fyrir pandabirni að fjölga sér þar sem kvenkyns pöndur eru aðeins frjóar í nokkra daga á ári.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert