Skipið sokkið og von úti um eftirlifendur

Olíuskipið Sanchi sökk í dag, átta dögum eftir árekstur þess ...
Olíuskipið Sanchi sökk í dag, átta dögum eftir árekstur þess við flutningaskip. AFP

Íranska olíuskipið Sanchi sem lenti í árekstri við flutningaskip 6. janúar er sokkið og yfirvöld segja alla von úti um að hægt sé að bjarga skipverjunum 30 sem enn er saknað. Guardian greinir frá.

Mikill eldur blossaði upp í skipinu á ný í dag, sunnudag, og stóð reykurinn allt að kílómetra upp í loftið. Skömmu síðar sökk skipið, að sögn kínverskra yfirvalda.

Um borð í skipinu voru um 30 íranskir skipverjar og tveir frá Bangladess. Talið er að allir skipverjar hafi látist innan við klukkutíma frá árekstrinum vegna sprenginga og gass. Tekist hefur að ná tveimur líkum úr skipinu, auk svarta kassans.

Skipið hafði flotið um í ljósum logum í átta daga eftir árekstur við flutningaskipið CF Crystal skammt frá stöndum Kína. Um borð í Sanchi voru 136 þúsund tonn af hráolíu frá Íran, en kínversk yfirvöld hafa dregið úr ótta við umhverfisslys.

mbl.is