Ýtti á vitlausan takka við vaktaskipti

Skilaboðin sem íbúar og ferðamenn á Hawaii fengu send í …
Skilaboðin sem íbúar og ferðamenn á Hawaii fengu send í gær. Skjáskot

Ástæðan fyrir eldflaugaárásarviðvöruninni sem send var til allra íbúa og ferðamanna sem staddir voru á Hawaii í gær var starfsmaður sem ýtti á vitlausan takka. Yfirvöld hafa lýst því yfir að atvikið verði rannsakað í þaula. BBC greinir frá.

Vaktaskipti fara fram í öryggismiðstöð fylkisins þrisvar á sólarhring og við vaktaskipti fer fram ferli þar sem gengið er úr skugga að öryggiskerfið virki. Það var við slík vaktaskipti sem starfsmaður ýtti á vitlausan takka og sendi út öryggisviðvörun vegna eldflaugaárásar í alla farsíma. Þá kom viðvörunin einnig á öllum útvarps- og sjónvarpsstöðvum á svæðinu.

Viðvörunin var leiðrétt með tölvupósti 18 mínútum eftir að hún var send út, en tilkynning barst ekki í farsíma fólks fyrr en 38 mínútum eftir upphaflegu skilaboðin.

Eins og von var á olli viðvörunin mikilli skelfingu, en spennan í samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu fer vaxandi og vegna nálægðar er sérstakt viðvörunarkerfi til taks á Hawaii. Í desember síðastliðnum var kjarnorkuviðvörunarsírena eyjanna prófuð í fyrsta sinn síðan kalda stríðinu lauk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert