„Ég er ekki rasisti“

Donald Trump Bandaríkjaforseti neitar því að hann sé rasisti en hann hefur sætt harðri gagnrýni fyrir ummæli sín um ríki Afríku í Hvíta húsinu í síðustu viku. 

Trump ræddi við fréttamenn í golfklúbbi sínum á West Palm Beach í gærkvöldi. „Ég er ekki rasisti. Væntanlega er enginn maður sem þið hafið rætt við jafnlaus við að vera rasisti og ég,“ sagði forsetinn við fréttamenn en þetta er í fyrsta skipti sem hann bregst beint við ásökunum um að vera rasisti. 

Þingmenn úr báðum stjórnmálaflokkum, demókratar og repúblikanar, sátu fund forsetans í forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu á fimmtudag en þar var rætt um mögulegar umbætur á innflytjendalöggjöf Bandaríkjanna.

Tilgangur fundarins var að ræða DACA, sérstakt verkefni sem hefur forðað fólki sem kom ólöglega barnungt til Bandaríkjanna frá því að vera vísað úr landi. Var á fundinum rædd málamiðlun á milli repúblikana og demókrata, sem fæli í sér að DACA yrði ekki numið úr gildi, líkt og Trump hefur viljað, en í staðinn yrði tekið fyrir ýmsar aðrar leiðir fyrir fólk til þess að verða sér úti um vegabréfsáritanir til Bandaríkjanna, auk þess sem fjölskyldur þeirra sem þegar hefðu fengið áritun ættu erfiðara með að flytja líka til Bandaríkjanna.

eftir fundinn greindu fjölmiðlar eins og Washington Post, New York Times og fleiri frá því að forsetinn hafi  lýst nokkrum ríkjum Afríku auk Haítí og El Salvador sem „skítaholum“. 

Trump sagði daginn eftir að hann hefði vissulega beitt hvössu orðfæri á fundinum, án þess að það hefði verið gróft eða særandi. Dick Durbin, öldungadeildarþingmaður demókrata, hafnaði neitun Trumps og sagði að forsetinn hefði notað orðið „skítaholur“ oftar en einu sinni á fundinum.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert