Kólerufaraldur í uppsiglingu í Kongó

Miklar líkur eru á því að kólerufaraldur eigi eftir að …
Miklar líkur eru á því að kólerufaraldur eigi eftir að brjótast út í Kongó. AFP

Miklar líkur eru á að kólerufaraldur brjótist út í Kongó eftir mikla rigningu og flóð í byrjun janúar í höfuðborginni Kinshasa, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Í borginni búa á milli 10 og 12 milljónir.

Frá því í nóvember hefur 531 greinst með kóleru og 32 látist af völdum hennar. Kólera hefur breiðst út í 21 af 35 svokölluðum heilbrigðissvæðum landsins. „Ástandið er grafalvarlegt,“ segir Sylvain Yuma Ramazani, yfirmaður heilbrigðismála landsins.  

Flest tilvik hafa greinst í fátækrahverfinu Camp Luka í borginni Kinshasa. Þar búa fjölmargir og er mikill skortur á hreinlæti, klósettum og hreinu vatni. Þriðjungur íbúa í borginni býr í hreisum. Þar hafa samtökin Læknar án landamæra komið upp bráðabrigðalæknisbúðum. 

11 tonn af lyfjum, þar af bóluefni og lyf til að meðhöndla ofþornun, hafa borist yfirvöldum í Kongó. 

Síðasti kólerufaraldurinn sem braust út árið 2017 geisaði fyrir utan höfuðborgina. Þar smituðust 50 þúsund manns og létust um þúsund manns af völdum kóleru. Ástandið hefur ekki verið verra frá árinu 1994. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert