Reyna að koma í veg fyrir umhverfisslys

AFP

Kínversk skip reyna hvað þau geta til að hreinsa upp mikinn olíuleka sem varð þegar íranska olíuskipið Sanchi sökk undan ströndum Kína.

136 þúsund tonn af olíu voru í skipinu sem sökk í gær eftir að mikill eldur kom upp á ný í skipinu.

Lík aðeins þriggja af 32 áhafnarmeðlimum hafa fundist eftir að skipið lenti í árekstri við CF Crystal, flutningaskip frá Hong Kong.

Um borð í skip­inu voru um 30 ír­ansk­ir skip­verj­ar og tveir frá Bangla­dess. Talið er að all­ir skip­verj­ar hafi lát­ist inn­an við klukku­tíma frá árekstr­in­um vegna spreng­inga og gass.

„Hreinsunarstarfið er eitt af því sem við einbeitum okkur að og það skiptir miklu máli. Enginn vill að annað stórslys verði,“ sagði talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins.

Rannsókn stendur enn á því hvað varð til þess að skipin tvö rákust saman.

Richard Steiner, ráðgjafi þegar kemur að olíulekum, sagði lekann vera gríðarlega mikinn. Jafnvel þótt aðeins 20 prósent af olíunni úr skipinu færi í sjóinn yrði það samt álíka mikið og í olíulekanum úr skipinu Exxon Valdez í Alaska árið 1989.

Mikill eldur logaði í olíuskipinu í gær.
Mikill eldur logaði í olíuskipinu í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert