Vannærð, veik og á vergangi

Meira en þrjár milljónir barna hafa fæðst í Jemen frá því stríðið braust út í mars 2015. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF, Fædd í stríði (Born into War) sem gefin var út í dag. Þar er lýst þeim áföllum sem börn í stríði eru látin þola. Þau eru á vergangi, í mikilli hættu á að smitast af sjúkdómum, búa við mikla fátækt, eru vannærð og hafa ekki aðgang að grunnþjónustu eins og hreinu vatni, heilsugæslu og menntun.

„Heil kynslóð barna í Jemen sem er að vaxa úr grasi þekkir ekkert annað en ofbeldi. Börnin í Jemen hafa þurft að þola átakanlegar afleiðingar stríðs sem þau hafa ekkert vald yfir,“ segir  Meritxell Relano, fulltrúi UNICEF í Jemen. „Vannæring og sjúkdómar grassera þegar grunnþjónusta er hrunin. Þeir sem komast lífs af eru líklegir til að bera ör stríðsins á líkama og sál það sem eftir er ævinnar.“

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að:

  • Meira en fimm þúsund börn hafa dáið eða særst í átökum eða um fimm börn á dag að meðaltali frá mars árið 2015.
  • Meira en ellefu milljónir barna þurfa á mannúðaraðstoð að halda eða næstum því hvert einasta barn í Jemen.
  • Meira en helmingur barnanna í Jemen hafa ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni.
  • Um 1,8 milljónir barna eru alvarlega vannærð. Þar af berjast um 400 þúsund börn fyrir lífi sínu vegna vannæringar. 
  • Um tvær milljónir barna ganga ekki í skóla og um hálf milljón hefur flosnað upp úr skóla eftir að átökin hófust af miklum þunga í mars árið 2015.
  • Talið er að yfir milljón manns hafi fengið kóleru eða niðurgang. Um fjórðungur eru börn yngri en fimm ára. 
  • Mikill meirihluti stúlkna er giftur áður en hann nær átján ára aldri.
  • Heilbrigðisstarfsmenn og kennarar hafa aðeins fengið greitt hluta launa sinna síðasta árið. Þetta hefur áhrif á menntun um 4,5 milljóna barna. Innan við helmingur allra heilbrigðisstofnanna eru að fullu starfhæfur.
  • Í september á síðasta ári höfðu 256 skólar verið eyðilagðir og fólk á flótta hélt til í um 150 skólum og vopnaðir hópar í 23. 
    Nýburi á sjúkrahúsi í Sanaa í Jemen þann 8. janúar.
    Nýburi á sjúkrahúsi í Sanaa í Jemen þann 8. janúar. Ljósmynd/UNICEF

Jafnvel áður en átökin hörðnuðu með aðkomu hernaðarbandalags Sádi-Araba og fleiri þjóða að stríðinu árið 2015 var Jemen fátækasta land Mið-Austurlanda og meðal fátækustu ríkja heims. Átök hafa geisað í áratugi í  landinu. Það hefur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. Efnahagur landsins er í rúst og grunnþjónusta er í molum. Flest börn og fjölskyldur draga fram lífið með aðstoð hjálparsamtaka. 

Í skýrslu UNICEF er þess krafist að stríðandi fylkingar, allar sem ein, sem og allir þeir sem einhver völd og áhrif hafa í alþjóðasamfélaginu, leggist á eitt og verndi börnin í Jemen með því að:

  •  Ná nú þegar samkomulagi um frið og binda þar með endi á átökin.
  • Fara að alþjóðlegum lögum um mannréttindi og mannúð um að vernda skilyrðislaust öll börn á meðan átök geisa. 
  • Sjá til þess að aðstoð berist greiðlega til allra barna sem á henni þurfa að halda í Jemen. Takmörkunum á innflutning varnings til Jemen verður að aflétta. Matur og eldsneyti er nauðsynlegt til að sporna gegn yfirvofandi hungursneyð og til að reka sjúkrahús og vatnsveitur.
  • Koma í veg fyrir algjört hrun grunnstoða samfélagsins, m.a. heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og vatnsveitna. Greiða verður heilbrigðisstarfsmönnum og kennurum laun sín.
  • Tryggja nægt fjármagn til að halda uppi neyðaraðstoð. Í ár þarf UNICEF á um 312 milljónum Bandaríkjadala, um 32 milljörðum króna, að halda til að halda áfram að sinna Jemenum í neyð.
Barn liggur á gjörgæsludeild sjúkrahúss í Sanaa í Jemen í …
Barn liggur á gjörgæsludeild sjúkrahúss í Sanaa í Jemen í lok desember. Ljósmynd/UNICEF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert