Bayeux-refillinn til Bretlands

Bayeux-refillinn.
Bayeux-refillinn. Ljósmynd/Wikipedia.org

Frönsk stjórnvöld standa í viðræðum um að lána Bayeux-refilinn svonefndan til Bretlands. Þetta tilkynnti skrifstofa Emmanuels Macron, forseta Frakklands, í dag en refillinn var ofinn á 11. öld og fjallar um orrustuna við Hastings árið 1066.

Fram kemur í frétt AFP að ef til þess kemur verði þó ekki af því fyrr en árið 2020 í fyrsta lagi enda þurfi að undirbúa refilinn vel fyrir mögulegt ferðalag yfir Ermasundið. Macron er í heimsókn í Bretlandi og er búist við að hann tilkynni formlega um að til standi að lána refilinn á meðan á henni stendur.

Refillinn er 70 metra langur og er sjaldan færður úr stað en hann er varðveittur á safni í borginni Bayeux í Normandí í Frakklandi. Innrásarher Normanna sigraði her Engilsaxa í orrustunni við Hastings og hernámu í kjölfarið England.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert