„Ég get bara sagt sannleikann“

Dylan Farrow.
Dylan Farrow. Skjáskot/CBS

Dyl­an Farrow, dótt­ir banda­ríska leik­stjór­ans Woo­dys Allens, segir að sér sé misboðið eftir að hafa verið hunsuð árum saman. Enginn hafi trúað henni og henni hafi verið ýtt til hliðar.

Farrow kom fram í morgunþætti sjónvarpsstöðvarinnar CBS þar sem hún ræddi ásakanir sínar gagnvart Allen. Viðtalið í heild sinni verður sýnt á stöðinni á morgun.

Farrow, sem er 32 ára gömul, hefur áður sagt frá því að Allen hafi beitt hana kyn­ferðis­legu of­beldi þegar hún var sjö ára göm­ul. Leikstjórinn hefur ávallt neitað. Farrow sagðist í viðtalinu vera sár og reið.

„Af hverju ætti ég ekki að vera reið og sár? Ég hef verið hunsuð í öll þessi ár,“ sagði Farrow og sagðist reið yfir því að fólk gefi í skyn að eina ástæða þess að hún tjái sig um málið núna sé #metoo-byltingin.

„Ég get bara sagt sannleikann og vonað að einhver trúi mér,“ sagði Farrow.

Allen var yfirheyrður árið 1992 vegna ásakana Farrow en hún sagði að hann hefði beitt hana kynferðislegri áreitni á háalofti á heimili þeirra. 

Woody Allen neitar því að hafa misnotað Farrow.
Woody Allen neitar því að hafa misnotað Farrow. AFP

„Hann sagði mér að leggj­ast á mag­ann og leika með raf­magns­lest sem bróðir minn átti. Síðan mis­notaði hann mig. Á meðan hann gerði það hvíslaði hann að mér að ég væri góð stelpa, þetta væri okk­ar leynd­ar­mál og lofaði að fara með mig til Par­ís­ar og gera mig að stjörnu í kvik­mynd­um sín­um,“ skrifaði Farrow í opnu bréfi í New York Times fyrir rúmum þremur árum.

Allen var ekki ákærður og hefur ávallt sagt að ásakanirnar séu uppspuni.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert