Fyrrum CIA-maður handtekinn í njósnamáli

Höfuðstöðvar CIA í Langley í Virginíu. Lee starfaði fyrir CIA …
Höfuðstöðvar CIA í Langley í Virginíu. Lee starfaði fyrir CIA á árunum 1994-2007, en það ár flutti hann til Hong Kong AFP

Fyrrverandi starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA hefur verið handtekinn í Bandaríkjunum og er ákærður fyrir að láta af hendi trúnaðarupplýsingar. Starfsmaðurinn, Jerry Chun Shing Lee, sem er ekki fæddur í Bandaríkjunum en er með bandarískan ríkisborgararétt, var handtekinn á JFK flugvellinum í New York á mánudag að því er bandaríska dómsmálaráðuneytið greinir frá.

Lee starfaði fyrir CIA á árunum 1994-2007, en það ár flutti hann til Hong Kong.

Ákæran gegn Lee er talin tengjast rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI, sem hófst árið 2012, á niðurbroti njósnastarfsemi CIA í Kína að því er BBC greinir frá. Árin tvo á undan höfðu 20 uppljóstrarar CIA ýmist verið drepnir eða fangelsaðir og þykir málið eitt það versta fyrir bandaríska njósnastarfsemi á síðustu árum. Yfirvöld vissu hins vegar ekki hvort kenna ætti um gagnaþjófnaði eða starfi uppljóstrara.

Bandarískir fjölmiðlar hafa eftir heimildamanni, sem tengist rannsókninni, að rannsakendur gruni nú Lee um að hafa unnið með kínverskum yfirvöldum.

Lee, sem einnig gegnir nafninu Zhen Cheng Li, var í bandaríska hernum á árunum 1982-86 og fór svo að starfa fyrir CIA 1994. Þar sérhæfði hann sig í eftirlitsaðgerðum og samskiptum við uppljóstrara og útsendara á vettvangi. Hann hafði því aðgang að margvíslegum trúnaðarupplýsingum.

Er hann sagður hafa verið ósáttur við CIA er hann hætti, en framgangur hans hjá stofnuninni varp ekki sá sem hann vonaðist eftir. Er FBI sagt hafa leitað á hótelherbergjum Lee á Havaí og í Virginíu 2013 og á að hafa fundið þar tvær minnisbækur með leynilegum upplýsingum, m.a. réttum nöfnum og símanúmerum uppljóstrara og njósnara. Er hann sagður hafa verið yfirheyrður í tengslum við fundinn á þeim tíma.

Lee var svo handtekinn aftur nú á mánudag og bendir BBC á að hann hafi ekki verið ákærður fyrir njósnir, heldur fyrir að greina ólöglega frá upplýsingum um varnarmál þjóðarinnar. Hann getur því átt 10 ára fangelsi yfir höfði sér, í stað dauðadóms, en bandarískir fjölmiðlar hafa sumir gefið í skyn að ástæða þessa sé að bandarísk yfirvöld vilji ekki upplýsa leynilegar upplýsingar fyrir dómstólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert