Líkti hann forsætisráðherranum við Hitler?

Carles Puigdemont.
Carles Puigdemont. AFP

Samband spænskra gyðinga hefur gagnrýnt harðlega myndskeið sem Car­les Puig­demont, fyrr­ver­andi for­seti heima­stjórn­ar Katalón­íu, birti á Twitter-síðu sinni í dag. Þar má sjá myndir af Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, Hitler og Franco.

Skömmu áður en þingforseti var kjörinn á héraðsþing­inu í Katalón­íu í dag hélt Puigdemont áfram að gagnrýna spænsk stjórnvöld fyrir að leysa þingið upp í kjölfarið á þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu í október.

„Þeir skilja bara ótta, ofbeldi og frekju,“ skrifaði Puigdemont á Twitter. „Við munum sýna þeim að það er ekkert sem getur beygt andann hjá frjálsu, friðsömu fólki. Við erum aftur að byggja upp stofnanir okkar og berjumst fyrir okkar ríki. Lengi lifi frjáls Katalónía!“

Fyrir neðan skilaboðin var myndskeið þar sem var búið að blanda saman ofbeldi af hendi spænskra lögregluþjóna í október við fund þar sem Franco og Hitler hittust árið 1940. Strax á eftir mátti sjá myndskeið af Rajoy.

Félag spænskra gyðinga fordæmdi myndskeiðið en samstarfsmaður Puigdemont sagði að hann væri ekki að líkja Rajoy við Franco og Hitler. „Hann var eingöngu að sýna hversu mikil samstaða var á meðal fólks frá Katalóníu í október.“

Frétt Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert