Dróni bjargaði drengjum í sjávarháska

Dróninn á myndinni, sem hér flýgur yfir Bilgola ströndinni í …
Dróninn á myndinni, sem hér flýgur yfir Bilgola ströndinni í Ástralíu, er notaður til að fylgjast með hákarla umferð. Einnig er verið að gera tilraunir með að nota dróna til björgunarstarfa. AFP

Dróni bjargaði í dag tveimur áströlskum unglingum sem lentu í vanda á sundi í sjónum. Dróninn lét öryggisbúnað falla úr lofti niður í hafið, þar sem unglingarnir voru í vanda.

Er þetta í fyrsta skipti sem dróninn er notaður, en að sögn AFP-fréttastofunnar eru Ástralir framarlega hvað varðar tækni til björgunarstarfa á hafi og eru nú tilraunir gerðar með dróna á tugum staða víðsvegar við strendur landsins.

Talið er að þetta sé í fyrsta skipti sem dróni er notaður til björgunarstarfa með þessum hætti, en atburðurinn átti sér stað úti fyrir Lennox Head höfða í New South Wales. Höfðu strandgestir látið strandverði vita af drengjunum og hafði hann í kjölfarið samband við stjórnanda drónans.

Mér tókst að senda hann á loft, fljúga honum á réttan stað og varpa niður björgunarhylkinu á innan við tveimur mínútum,“ sagði stjórnandi drónans Jai Sheridan við AFP.

„Á venjulegum degi þá hefði það tekið strandverðina nokkrar mínútur í viðbót að komast út til þeirra.“

Eru drengirnir sagðir hafa verið nokkuð þreyttir eftir barninginn, en ómeiddir að öðru leyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert