Turpin hjónin neita sök

David og Louise Turpin ásamt lögmönnum í dómsal í dag.
David og Louise Turpin ásamt lögmönnum í dómsal í dag. AFP

Turp­in hjón­in, sem ákærð eru fyr­ir að hafa haldið vannærðum börn­um sín­um fang­elsuðum á heim­ili fjöl­skyld­unn­ar í Kali­forn­íu, lýstu yfir sakleysi sínu þegar þau voru leidd fyrir dómara í dag.

David og Louise Turpin eiga yfir höfði sér ákæru vegna pyntinga, misnotkunar og frelsissviptingar. Þau voru handtekin eftir að dóttir þeirra flúði út um glugga en þau eiga 13 börn á aldrinum tveggja til 29 ára.

Hjónin voru leidd fyrir dómara nokkrum klukkustundum eftir að dómari lýsti hræðilegum ásökunum gegn þeim. Börn­in 13, sem öll eru líf­fræðileg börn hjón­anna, hafa dvalið á sjúkra­húsi frá því að þeim var bjargað. Þau voru veru­lega vannærð og illa á sig kom­in er þau fund­ust og sum hver hlekkjuð við rúm sitt.

Mike Hestrin saksóknari sagði að hjónin hefðu refsað börnum sínum með því að binda þau. Fyrst með reipum og síðar voru þau hlekkjuð við rúm sín með hengilás. Hestrin sagði að refsingar hefðu staðið yfir vikum og mánuðum saman og urðu þær grimmilegri eftir því sem tíminn leið.

Saksóknari tók fram nokkur atriði sem Turpin hjónin eru sökuð um. Börnin máttu þola reglulegar barsmíðar og þau voru auk þess kyrkt. Þeim var aðeins leyft að baða sig einu sinni á ári.

Ef börnin þvoðu sér fyrir ofan úlnlið við handþvott var þeim refsað vegna þess að þá „léku þau sér með vatnið.“

Börnin fengu einungis að borða einu sinni á dag. Stundum keyptu hjónin mat, til að mynda kökur, og komu þeim fyrir þannig að börnin gætu séð þær en þau máttu ekki smakka sætindin.

Eina barnið sem var jafn þungt og það á að vera var tveggja ára barnið, hin voru talsvert léttari en eðlilegt getur talist. 12 ára barnið var jafn þungt og meðal sjö ára barn og elsta barnið, 29 ára, var ekki nema 37 kíló.

Verði hjónin fundin sek eiga þau yfir höfði sér að minnsta kosti 94 ára fangelsisvist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert