Alríkislokun vofir yfir

Ted Cruz þingmaður Repúblikana ræðir við fjölmiðla fyrr í dag …
Ted Cruz þingmaður Repúblikana ræðir við fjölmiðla fyrr í dag um yfirvofandi lokun alríkisins. AFP

Bandaríska alríkið er á barmi lokunar. Takist ekki að afgreiða nýtt frumvarp fyrir þann tíma stöðvast þorri allrar starfsemi bandaríska alríkisins, til að mynda allt opinbert skólastarf. Þingmönnum tókst ekki að setja fjárlög í lok síðasta fjárlagaárs í september síðastliðnum en síðan þá hefur starfsemi ríkisins verið haldið gangandi með framlengingum á fjárlögum. Sú nýjasta rennur út á miðnætti að staðartíma í Washington. 

Nýjasta frumvarp Repúblikana um framlengingu var samþykkt í fulltrúadeild þingsins fyrr í dag, en bíður enn afgreiðslu öldungadeildarinnar. Repúblikanar eru í meirihluta þar, með 51 mann af 100. Það dugir þó ekki, því fjárlagafrumvarpið þarf 60 atkvæði til að verða að lögum. Mikil samstaða virðist meðal þingmanna Demókrata um að hleypa málinu ekki í gegn, auk þess sem fjórir þingmenn Repúblikana, hið minnsta, hyggjast kjósa gegn því.

Helsti ásteytingarsteinninn mun vera málefni hóps sem á ensku er kallaður „Dreamers“, fjölda fólks sem kom til Bandaríkjanna ólöglega, sem börn. Ríkisstjórn Baracks Obama kom því á að umræddir fengju dvalarleyfi og atvinnuleyfi í landinu til tveggja ára, með möguleika á framlengingu. Í fyrra tilheyrðu um 800.000 manns áætluninni, sem flestir höfðu búið í Bandaríkjunum stærstan hluta ævi sinar. Donald Trump Bandaríkjaforseti felldi hana úr gildi í september.

Öldungadeildarþingmenn Demókrata hafa lýst því yfir að þeir muni ekki samþykkja frumvarp stjórnarinnar nema réttindi hópsins til veru í Bandaríkjunum verði tryggð áfram.

Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert