85 látnir úr flensu í Bretlandi

AFP

Inflúensa hefur leikið Breta grátt í vetur en alls eru 85 látnir úr áströlsku flensunni sem hefur farið eins og stormsveipur yfir Bretlandseyjar undanfarna mánuði. Er talið að inflúensufaraldurinn nú sé sá versti þar í landi í 20 ár. 114 sjúklingar eru í lífshættu á gjörgæsludeildum vegna flensu.

Í fyrstu viku ársins leituðu 22 þúsund manns á sjúkrahús í Bretlandi vegna flensu og hefur þetta ekki orðið til þess að bæta ástandið í heilbrigðiskerfi Breta, NHS, sem var slæmt fyrir.

Meðal þeirra sem hafa látist er 18 ára skosk stúlka, Bethany Walker, en hún lést eftir að flensan varð að lungnabólgu, samkvæmt frétt Telegraph í dag.

Yfir þrjár milljónir Breta, sem eru í áhættuhóp, hafa ekki verið bólusettar þrátt fyrir að almannaógn hafi ekki verið meiri síðan svínaflensan geisaði árið 2009.

Frétt Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert