Bandaríska alríkinu lokað

Ekki náðist að semja í öldungadeild Bandaríkjaþings um framlengingu á fjárlögum í gærkvöldi og er því búið að loka bandaríska alríkinu. Það þýðir að fyrir utan mikilvægustu grunnþjónustu hefur öllum stofnunum ríkisins verið lokað og starfsmenn þar fá ekki greidd laun. Þetta nær þó ekki til bráðamóttöku, grunnöryggismála, póstþjónustu, flugumferðarstjórnar, fangelsa, skattsins, rafmagnsveitna og fleiri starfa sem tengjast grunnþjónustu.

Síðast varð lokun alríkisins árið 2013 og stóð sú lota yfir í 16 daga.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti fyrir helgi framlengingu á fjárlögunum með 230-197 meirihluta. Í öldungadeildinni náðist hins vegar ekki meirihluti, en til að slík lög fari þar í gegn þarf samþykki allavega 60 af 100 þingmönnum. Ekki tókst að setja fjárlög í lok síðasta fjárlagaárs í september og síðan þá hefur starfsemi ríkisins verið haldið gangandi með ítrekuðum framlengingum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði verið vongóður um að náðst myndi sátt um frumvarpið, en stuttu fyrir miðnætti að bandarískum tíma sagði hann á samfélagsmiðlum að hann væri svartsýnn. Hafði Chcuk Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, sagt að of langt væri á milli deiluaðila til að hægt yrði að semja á svo skömmum tíma, eftir að Trump boðaði hann á sinn fund í gær.

Ekki náðist samstaða í bandarísku öldungadeildinni um framlengingu á fjárlögunum.
Ekki náðist samstaða í bandarísku öldungadeildinni um framlengingu á fjárlögunum. AFP

Aðaldeilumál flokkanna tveggja á Bandaríkjaþingi er krafa demókrata um að meira en 700 þúsund ólöglegir innflytjendur, sem komu til Bandaríkjanna sem börn og höfðu notið ákveðinnar verndar í stjórnartíð Baracks Obama, muni áfram njóta hennar. Er um að ræða svokölluð draumabörn (e. dreamers). Trump tilkynnti hins vegar að hann myndi loka á alla vernd þeirra og að þau gætu búist við að verða vísað úr landi. Gaf hann fulltrúadeild þingsins frest fram í mars til að komast að niðurstöðu um hvernig skyldi útfæra brottflutninginn.

Það eru þó ekki bara demókratar sem voru andsnúnir því að samþykkja framlenginguna. Fjórir repúblikanar kusu með demókrötum og féllu atkvæði þannig að 50 samþykktu framlengingu en 49 voru á móti.

Lokunin núna er söguleg því óalgengt er að slíkt komi fyrir þegar einn flokkur er með meirihluta í báðum þingdeildum sem og forsetaembættið, eins og staðan er núna.



Á miðnætti var ljóst að samkomulagið hefði ekki náðst.
Á miðnætti var ljóst að samkomulagið hefði ekki náðst. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert