„Ég vildi ekki vera á lífi“

Michael Phelps.
Michael Phelps. AFP

Sundmaðurinn og margfaldi ólympíumeistarinn Michael Phelps sagði í viðtali nýverið að hann hefði glímt við þunglyndi og kvíða undanfarin 17 ár og hefði íhugað að taka eigið líf. 

Phelps ræðir málin og vill með því hjálpa öðrum sem eru í svipaðri stöðu og hann var. Hann segist hafa fallið niður í djúpan dal eftir Ólympíuleika og að ástandið hafi verið sérstaklega slæmt eftir leikana í London árið 2012.

„Ég vildi ekki vera sundmaður áfram. Ég vildi ekki vera á lífi. Ég velti fyrir mér möguleikanum á því að taka eigið líf,“ sagði Phelps á ráðstefnu í Chicago. Hann lokaði sig af í fjóra daga eftir að leikunum í London lauk.

Michael Phelps brosir og fagnar með gullverðlaun um hálsinn á …
Michael Phelps brosir og fagnar með gullverðlaun um hálsinn á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016. AFP

„Við íþróttamennirnir eigum að vera stórir og sterkir en þetta er ekki veikleiki,“ sagði Phelps. Hann komst í kast við lögin eftir Ólympíuleikana árið 2008, þar sem hann setti met með því að vinna til átta gullverðlauna. Phelps var þá tvívegis handtekinn fyrir ölvunarakstur.

„Andleg veikindi virðist vera eitthvað sem fólk skammast sín fyrir og þannig er staðan enn þann dag í dag,“ sagði Phelps en að hans mati á fólk ekki að þurfa að skammast sín fyrir andleg veikindi.

Frétt Sky News.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert