Páfi franska eldhússins látinn

Einn fremsti matreiðslumaður Frakka og rauninni allrar Evrópu, Paul Bocuse, er látinn 91 árs að aldri eftir langa og harða baráttu við parkinsons-veiki. Bocuse hefur verið nefndur páfi franska eldhússins og breytti landslaginu í eldhúsum landsins til frambúðar á áttunda áratug síðustu aldar með Nouvelle Cuisine.

 Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, er einn þeirra fjölmörgu sem hafa minnst Bocuse í dag og segir Macron að Bocuse sé sá goðsagnakenndi einstaklingur sem breytti franska eldhúsinu og nú gráti matreiðslumeistarar í eldhúsum sínum um allt Frakkland.


„Hann var einn hinna stórkostlegu í franskri matargerðarlist, Charles de Gaulle, hershöfðingi eldhússins,“ segir François Simon sem er einn helsti matargagnrýnandi Frakklands. 

Paul Bocuse.
Paul Bocuse. AFP

Bocuse tókst það sem engum öðrum hefur tekist - að reka þriggja stjörnu Michelin-veitingastað í meira en fjóra áratugi. Hjarta veldis Bocuse, veitingastaðurinn „L’Auberge du Pont de Collonges“ í þorpinu Collonges-au-Mont-d’Orood skammt fyrir utan Lyon, fékk þrjár stjörnur hjá Michelin árið 1965 og hefur aldrei glatað þeim. 

„Monsieur Paul,“ eins og hann var alltaf kallaður var útnefndur matreiðslumaður aldarinnar af Gault-Millau, höfuðkeppinaut Michelin árið 1989 og síðan aftur af The Culinary Institute of America árið 2011.

Veitingastaður Paul Bocuse,L'auberge du Pont de Collonges í þorpinu Collonge- …
Veitingastaður Paul Bocuse,L'auberge du Pont de Collonges í þorpinu Collonge- au Mont-d'Or. AFP

Bocuse var trúr frönsku hefðinni í eldhúsinu en um leið frumkvöðull á svo mörgum sviðum. Til að mynda fyrir kennileiti  L'Auberge, súpu með svörtum truflum, sem hann lagaði í fyrsta skipti fyrir ekki ómerkari mann en forseta Frakklands, Valery Giscard d'Estaing, árið 1975, sem heiðraði hann með Légion d'Honneur-orðunni, æðstu orðu franska lýðveldisins.

Fjölskylda monsieur Paul hefur tengst matreiðslu um aldir og hóf hann sjálfur að starfa við matreiðslu 16 ára gamall. Fljótlega varð hann ekki bara þekktur fyrir mat heldur einnig ástríðu fyrir góðum vínum og konum. „Ég elska konur og við lifum svo lengi nú á dögum að það er ómögulegt að eyða allri ævinni með aðeins einni,“ sagði Bocuse í viðtali við Daily Telegraph árið 2005.

Hér sést þáverandi forseti Frakklands, Valery Giscard d'Estaing næla æðstu …
Hér sést þáverandi forseti Frakklands, Valery Giscard d'Estaing næla æðstu orðu franska lýðveldisins, Legion d'Honneur, í Paul Bocuse í Elyéese-höll árið 1975. AFP

Hann kvæntist Raymonde árið 1946 en átti einnig opinberlega í ástarsambandi við Raymone, sem hann á son með, og Patriciu, sem sá um mál hans út á við - var umboðsmaður hans.

Þrátt fyrir að vera sá sem nefndur er í sömu andrá og Nouvelle Cuisine þar sem þungum sósum var skipt út fyrir léttari og hollustan höfð í fyrirrúmi þá var hann sjálfur meira fyrir hefðbundinn franskan mat. „Ég elska smjör, rjóma og vín,“ sagði hann eitt sinn. „Ekki litlar baunir sem eru skornar í fernt.“

AFP

Helsta matreiðslukeppni heims, Bocuse d'Or, er kennd við þennan mikla meistara en íslenskir matreiðslumeistarar hafa oft tekið þátt og staðið sig mjög vel í þessari keppni sem kalla má heimsmeistarakeppnina í matreiðslu. Árið 2007, þegar Paul Bocuse varð áttræður, komu yfir áttatíu helstu matreiðslumeistarar heims til Frakklands til þess að fagna með honum á 81 árs afmælinu og um leið arfleifð í matreiðslunni.

Le Monde

Le Parisien

BBC

NYT

Franski matreiðslumeistarinn Jérôme Bocuse sést hér laga kokkahúfu föður síns, …
Franski matreiðslumeistarinn Jérôme Bocuse sést hér laga kokkahúfu föður síns, Paul Bocuse. AFP
Paul Bocuse.
Paul Bocuse. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert