Réðust inn á hótel í Kabúl

AFP

Að minnsta kosti fjórir vopnaðir menn réðust inn á Intercontinental-hótelið í Kabúl í kvöld og skutu á gesti og starfsfólk. Ekki er vitað hversu margir eru látnir en árásarmennirnir eru enn inni á hótelinu þegar þetta er ritað.

Ekki er vitað hverjir standa á bak við árásina en yfirleitt eru það talibanar sem standa á bak við árásir í höfuðborg Afganistan. Mjög hefur verið varað við því undanfarna daga að árás gæti verið yfirvofandi og fólk beðið um að forðast hótel og aðra staði sem líklegt er að útlendingar séu staddir á.

Hótelgestur sem AFP-fréttastofan ræddi við í kvöld segist vera í felum á herbergi sínu en hann heyri skothvelli. Tugir gesta eru á hótelinu en þar átti að halda upplýsingatækniráðstefnu á morgun. 

Talsmaður innanríkisráðuneytisins segir að búið sé að flytja sjö á sjúkrahús og að tveir árásarmannanna hafi verið skotnir til bana. Ekki muni liggja fyrir hversu margir hafi látist fyrr en áhlaupinu lýkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert