Trump fullur bjartsýni

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Vonir standa til að hægt verði að koma í veg fyrir að loka þurfi ýmsum ríkisstofnunum í Bandaríkjunum á miðnætti að staðartíma. Donald Trump forseti vakti fólk til bjartsýni eftir fund með öldungadeildarþingmanni.

Fundaði forsetinn með Chuck Schumer, öldungadeildarþingmanni demókrata, en eins og áður hefur komið fram þurfa repúblikanar stuðning í það minnsta níu demókrata. Trump og Schumer ætla að leita lausna á málinu með Paul Ryan þingforseta og Mitch McConnell, formanni þingflokks repúblikana í öldungadeild. 

Þing­mönn­um tókst ekki að setja fjár­lög í lok síðasta fjár­laga­árs í sept­em­ber síðastliðnum en síðan þá hef­ur starf­semi rík­is­ins verið haldið gang­andi með fram­leng­ing­um á fjár­lög­um. Sú nýj­asta renn­ur út á miðnætti að staðar­tíma í Washingt­on. 

Nýj­asta frum­varp re­públi­kana um fram­leng­ingu var samþykkt í full­trúa­deild þings­ins fyrr í dag, en bíður enn af­greiðslu öld­unga­deild­ar­inn­ar. Re­públi­kan­ar eru í meiri­hluta þar, með 51 mann af 100. Það dug­ir þó ekki, því fjár­laga­frum­varpið þarf 60 at­kvæði til að verða að lög­um.

Schumer sagði eftir fundinn með Trump að einhver árangur hefði náðst en enn ætti eftir að ná saman um ýmis ágreiningsefni. Trump sagði fundinn hafa gengið mjög vel og að fjárheimild til ríkisstofnana næstu fjórar vikur væri fyrir bestu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert