„Uppræta hreiður hryðjuverkamanna“

AFP

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, segir að með árásum á norðurhluta Sýrlands, þar sem hersveitir Kúrda ráða ríkjum, sé ætlunin að uppræta hreiður hryðjuverkamanna. Bæði Bandaríkin og Rússar hafa mótmælt árásum Tyrkja. Óttast er að árásir Tyrkja verði til þess að stríðið í Sýrlandi dragist enn frekar á langinn en í mars eru sjö ár liðin frá því mótmælin gegn forseta landsins hófust. 

Aðgerð tyrkneska hersins „Olive Branch“ hófst klukkan 14 að íslenskum tíma og beinist gegn kúr­dísku her­sveit­un­um Vernd­ar­sveit­ir þjóðar­inn­ar (YPG). Banda­ríkja­her hef­ur veitt YPG marg­vís­leg­an stuðning und­an­far­in ár við litla gleði tyrk­neskra stjórn­valda. Jafnframt eru Tyrkir að gera loftárásir á búðir vígasveita Ríkis íslams. 

Fáar fréttir hafa borist af mannfalli en í tilkynningu frá tyrkneska hernum kemur fram að 108 skotmörk hafi verið hæfð og að allir þeir sem særðust eða létust hafi verið kúrdískir skæruliðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert